Aron Einar: Yrði gríðarlega mikilvægt að fá Gylfa aftur

Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson fagna marki gegn …
Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson fagna marki gegn Kósovó í október árið 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, vonast til þess að Gylfi Þór Sigurðsson snúi aftur í íslenska landsliðið fyrir undankeppni Evrópumótsins sem nú stendur yfir.

Gylfi, sem er 33 ára gam­all, hef­ur ekki leikið fót­bolta und­an­far­in tvö ár en hann lék sinn síðasta A-lands­leik gegn Dan­mörku í Þjóðadeild­inni á Par­ken í nóv­em­ber 2020.

Óvíst er hvort Gylfi snýr aftur á knattspyrnuvöllinn en hann lék síðast með Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Getur nýst okkur afar vel

„Auðvitað vonast ég til þess að Gylfi snúi aftur í landsliðið,“ sagði Aron Einar í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær.

„Hann er gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður með mikla reynslu og hann getur nýst okkur afar vel í undankeppninni ef hann ákveður að taka slaginn á nýjan leik.

Åge hefur sjálfur gefið það út að hann vilji fá hann aftur og það að fá hann aftur yrði gríðarlega mikilvægt fyrir okkur,“ bætti Aron Einar við í samtali við mbl.is.

mbl.is