Mér leið ömurlega í þessum leik

Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni í dag.
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Viktor Örn Margeirsson, leikmaður Breiðabliks, var ekki sáttur við 2:2-jafntefli liðsins gegn FH í Bestu deild karla í fótbolta í dag. Breiðablik komst í 2:0, en FH tókst að jafna. Fyrra markið kom eftir mistök hjá Stefáni Inga Sigurðarsyni, sem skoraði fyrsta mark leiksins.

„Við gefum þeim smá líf þegar við hittum ekki boltann, en það er eitthvað sem getur gerst. Við vorum góðir fyrstu 25 mínúturnar en svo vantaði einhvern eld og kraft í okkur. Við vorum ekki líkir sjálfum okkur,“ sagði Viktor við mbl.is eftir leik.

Viktor Örn Margeirsson í leik með Breiðabliki.
Viktor Örn Margeirsson í leik með Breiðabliki. mbl.is/Arnþór Birkisson

Átta gul spjöld litu dagsins ljós, en það fyrsta kom ekki fyrr en eftir rúmlega klukkutímaleik. Eftir það fór spjaldið ótt og títt á loft. „Þetta var erfiður leikur og völlurinn var þungur, fyrir bæði lið. Menn eru kappsamir og takast á en það er ekkert illt í þessu. Það var smá hiti en ekkert persónulegt,“ sagði Viktor.

Hann var ekki sáttur við eigin frammistöðu, né frammistöðu liðsins.

„Mér leið ömurlega í þessum leik og var ekki að finna mig. Frammistaðan var eftir því. Það var margt skemmtilegt í þessum leik samt sem áður og örugglega fínn leikur fyrir augað. Ég er samt alls ekki sáttur strax eftir leik. Það er hægt að grafa upp allar heimsins afsakanir en maður lítur ekki vel út með þær. Ég átti að gera betur og við áttum að gera betur. Við vorum of oft eftir á,“ sagði hann

mbl.is