Ísland er úr leik á EM

Ísland er úr leik á Evrópumótinu í knattspyrnu eftir að hafa fengið skell gegn gestgjöfum Frakka þegar þjóðirnar mættust á Stade de France í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. Frakkar fóru með öruggan sigur af hólmi, 5:2, eftir að hafa verið 4:0 yfir í hálfleik.

Frakkar byrjuðu leikinn betur og eins og gegn Englandi þá lenti Ísland fljótt undir. Á 12. mínútu komust Frakkar yfir þegar Oliver Giroud skoraði, en hann fékk þá langa sendingu yfir vörn Íslands sem misreiknaði sig illilega og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Giroud.

Með því gáfu Frakkar tóninn á meðan íslenska liðinu gekk illa að fóta sig. Á 20. mínútu kom annað markið og það var eftir fast leikatriði. Antoine Griezmann tók þá hornspyrnu, boltinn barst inn á markteig þar sem Paul Pogba kom á ferðinni og stangaði boltann í netið eftir að hafa haft betur í skallaeinvígi við Jón Daða Böðvarsson.

Martröð undir lok fyrri hálfleiks

Frakkar réðu algjörlega ferðinni í framhaldinu og íslenska liðið náði engum takti í sinn leik. Miði var þó enn möguleiki á þessari stundu, en Frakkar gerðu nánast út um leikinn á síðustu mínútum fyrri hálfleiks. Á 43. mínútu skoraði Payet með lúmsku skoti við vítateigslínuna eftir snarpa sókn Frakka. Boltinn barst þá í gegnum allan pakkann og í hornið. Staðan 3:0.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom svo algjört rothögg þegar Griezmann slapp einn innfyrir eftir að hafa fengið stungusendingu frá Giroud með hælnum í gegnum miðja vörn Íslands. Hann var einn á auðum sjó og vippaði laglega yfir Hannes í markinu. Staðan 4:0 fyrir Frökkum í hálfleik sem settu um leið met með því að vera fyrstir þjóða í lokakeppni EM til að skora fjögur mörk í fyrri hálfleik einum.

Tvöföld skipting í hálfleik

Ísland gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik. Sverrir Ingi Ingason leysti Kára Árnason af hólmi í vörninni á meðan Alfreð Finnbogason tók stöðu Jóns Daða í sókninni. Íslenska liðið þurfti að breyta miklu eftir hlé og það gerðu strákarnir. Á 56. mínútu sendi Gylfi Þór Sigurðsson boltann fyrir frá vinstri þar sem Kolbeinn Sigþórsson mætti eins og gammur í teignum og stýrði boltanum í netið. Hans 22. landsliðsmark og staðan 4:1.

En Frakkar voru fljótir að slökkva alla von sem hafði kviknað í brjóstum Íslendinga. Aðeins þremur mínútum eftir markið skoraði Oliver Giroud sitt annað mark og fimmta mark Frakka þegar hann skallaði aukaspyrnu Dimitri Payet í netið. Hann hafði betur við Sverri Inga í skallaeinvígi og stýrði boltanum í netið.

Mark strax eftir innkomu Eiðs

Áfram réðu Frakkar ferðinni en strákarnir héldu þó alltaf uppi baráttunni. Á 83. mínútu kom Eiður Smári Guðjohnsen inn fyrir Kolbein og tók strax við fyrirliðabandinu. Aðeins mínútu síðar minnkaði Ísland muninn. Ari Freyr Skúlason sendi þá boltann fyrir markið, beint á Birki Bjarnason sem stökk hæst í teignum og skoraði með laglegum skalla. Staðan 5:2.

Bæði lið fengu sín fri eftir markið og íslenskir áhorfendur létu vel í sér heyra eins og allan leikinn þrátt fyrir að á móti hafi blásið. Þegar lokaflautið gall, 5:2, héldu þeir áfram að syngja og klappa fyrir íslenska liðinu enda frammistaðan verið frábær á þessu móti. Nú er hins vegar komið að endalokum að sinni.

Gestgjafar Frakka eru því komnir áfram í undanúrslit mótsins og mæta Þjóðverjum í Marseille á fimmtudagskvöld. Ísland er hins vegar úr leik eftir glæsta frammistöðu sem heillaði heimsbyggðina.

Frakkland 5:2 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Frakkar fara áfram en glæsilegri þátttöku Íslands á EM er lokið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

LEIKIR Í DAG - 17. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 17. APRÍL

Útsláttarkeppnin