Arnór mikilvægur í svona leik

Aron var ánægður með innkomu Róberts Gunnarsson sem var á …
Aron var ánægður með innkomu Róberts Gunnarsson sem var á bekknum í fyrri hálfleik. Ljósmynd / Foto Olimpik

„Þetta var frábært. Það er virkilega sterkt að vinna þennan erfiða leik, gegn góðu liði Noregs. Þeir eru sterkir og betur skipulagðir en oft áður,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Íslands, eftir sigurinn á Noregi í fyrsta leik á EM í Póllandi í kvöld.

„Undirbúningurinn er búinn að vera góður hjá okkur, menn búnir að æfa vel og við fórum með mjög góða samvisku inn í mótið, fullir trú á að við getum náð góðum árangri. Fyrsti leikurinn er alltaf mikilvægur og gott að ná sigri í honum,“ sagði Aron, sem var ánægður með margt í leik íslenska liðsins:

„Eftir að hafa staðið aðeins of langt frá hver öðrum í vörninni í upphafi leiks tókst okkur að þétta varnarleikinn, og Guðmundur Hólmar átti sterka innkomu á miðsvæðinu. Það vantaði aðeins meiri hraða í sóknarleikinn í fyrri hálfleiknum og við náðum honum upp í seinni hálfleik. Sendingarnar voru fleiri og við náðum að ráðast betur á þau svæði sem við vildum ráðast á,“ sagði Aron. Hann hvíldi Róbert Gunnarsson á varamannabekknum allan fyrri hálfleik en var ánægður með hans framlag eftir hlé:

Eigum tvo mjög ólíka leikstjórnendur

„Róbert átti mjög mikilvæga innkomu í seinni hálfleik, Aron var auðvitað mjög góður, Alexander mjög fórnfús, Guðjón Valur klikkaði ekki á færi, Björgvin með mikilvægar markvörslur, og svona mætti lengi telja. Liðið í heild sinni lagði sig 100% fram og okkur hefur fundist í aðdraganda mótsins að við séum með marga leikmenn sem geta komið inn og gert góða hluti. Það er það sem við þurfum að nýta í svona móti. Þeir sem spiluðu minna í dag þurfa að vera klárir í næsta leik, og okkur finnst við vera með þannig lið að við getum treyst á alla. Það hefur oft orðið Íslandi að falli [að dreifa álaginu ekki betur]. Rúnar komst ekki nægilega í takt við leikinn þegar hann kom inná, og þess vegna spilaði hann ekki seinni hálfleikinn. Það er vonandi að við komum honum inn fljótlega aftur, og Snorra líka,“ sagði Aron, en Snorri Steinn Guðjónsson spilaði nánast ekkert í leiknum. Arnór Atlason sá um leikstjórnandahlutverkið:

„Við erum með tvo góða leikstjórnendur. Þeir eru mjög ólíkir, og Arnór spilaði mjög vel í þessum tveimur æfingaleikjum sem hann lék sem leikstjórnandi, með Kára á línunni. Við vorum að vinna áfram með það sem hafði gengið vel í undirbúningnum, og vörnin sem Norðmenn spila hentar vel fyrir Kára. Norðmenn nota rosalega mikinn hraða og okkar pæling fyrir þennan leik var að reyna að halda varnarliði inni á vellinum, svo við gætum alltaf staðið vörnina þó að við næðum ekki að gera skiptingar eftir sóknirnar. Þess vegna var Arnór líka mikilvægur í dag, því þegar við náum ekki að skipta getur hann spilað sem bakvörður og Aron sem hafsent. Þetta er atriði sem við lögðum mikla áherslu á í þessum leik, og ég held að hafi á vissan hátt gengið upp,“ sagði Aron.

Aron Kristjánsson í þungum þönkum í Spodek-höllinni í kvöld.
Aron Kristjánsson í þungum þönkum í Spodek-höllinni í kvöld. Ljósmynd / Foto Olimpik
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert