Verður furðulegt að fylgjast með heima

Sverre Jakobsson verður ekki með íslenska landsliðinu á EM í ...
Sverre Jakobsson verður ekki með íslenska landsliðinu á EM í Póllandi. Sverre átti sæti í landsliðinu á öllum stórmótum frá HM 2007 til og HM í Katar fyrir ári. mbl.is/Golli

„Það verður örugglega stórfurðulegt að fylgjast bara með mótinu hér heima á Íslandi – að fara aldrei niður í morgunmat hjá lobbýinu og sofa ekki við hliðina á Kára eða einhverjum þennan mánuðinn,“ sagði Sverre Jakobsson hlæjandi, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í aðdraganda EM í Póllandi.

Þetta verður fyrsta stórmót íslenska landsliðsins án Sverres frá því að Alfreð Gíslason valdi hann í liðið fyrir heimsmeistaramótið í Þýskalandi 2007. Þó að þessi magnaði varnarmaður hafi nú lagt skóna á hilluna, og muni láta sér nægja að fylgjast með EM í sjónvarpi heima á Akureyri, þá er hann litlu síður spenntur fyrir mótinu en fyrrverandi liðsfélagar hans í landsliðinu:

„Það kom bara fiðringur í mann strax í lok ársins. Maður upplifir þetta eflaust aðeins sterkar en aðrir landsmenn. Eftir á að hyggja voru stórmótin það skemmtilegasta við ferilinn. Það var svo rosalega margt skemmtilegt við þetta. Eins og menn hafa bent á eru þetta auðvitað ansi mörg stórmót, en þegar á hólminn var komið var þetta alltaf jafnskemmtilegt. Auðvitað gengu mótin mismunandi, en þetta var eitthvað sem maður hlakkaði alltaf til,“ sagði Sverre. 

Ýtarlegt viðtal við Sverre er í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Auk þess fylgir Morgunblaðinu í dag 24 síðna blað sem er helgað  Evrópukeppninni í handknattleik sem hefst í Póllandi í dag.