„Fannst við vera með þá í hálstaki“

Bjarki Már Gunnarsson í vörninni gegn Króatíu.
Bjarki Már Gunnarsson í vörninni gegn Króatíu. Uros Hocevar

Bjarki Már Gunnarsson var í stóru hlutverki í vörn Íslands í leikjunum á EM í Split. Á löngum köflum í leikjunum gegn Svíum og Serbum náðu hann og Ólafur Guðmundsson vel saman fyrir miðju 6-0 varnarinnar.

„Já við náum vel saman. Annars væri Geir ekki að stilla okkur upp saman. Við sem spilum fyrir miðju í vörninni erum allir í góðu samstarfi. Enginn er síðri en annar. Allir eru tilbúnir að koma inn á og við vitum að þegar hlutirnir ganga illa þá er öryggi að vita að einhver er tilbúinn að koma inn á. Á móti Króötum gengu hlutirnir ekki vel upp því þeir náðu að teygja okkur í sundur. Þeir voru einfaldlega sneggri en við og við réðum ekki við Króatana. Okkur tókst að þétta vörnina á ný gegn Serbum framan af leik. Þeir eru hægari en aðeins meiri skotmenn. Við gátum mætt þeim framar og það hentaði okkur betur, “ sagði Bjarki þegar  mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum gegn Serbíu.

Spurður um hvort hann hafi verið með góða tilfinningu fyrir úrslitunum þegar Ísland var yfir 20:16 í síðari hálfleik og sautján mínútur eftir sagði Bjarki svo vera.

„Jú vörnin var að standa vel og Bjöggi var að verja á þeim tímapunkti. Mér fannst við vera með þá í hálstaki. Við fengum hraðaupphlaup í bakið og náðum ekki að stilla okkur af í vörninni. Annaðhvort keyrðu þeir á okkur og skoruðu strax eða þeir spiluðu rólega, svæfðu okkur og skoruðu þegar höndin var komin upp hjá dómurunum. Ég veit ekki alveg hvað gerðist á lokakaflanum og þyrfti að horfa á leikinn til að sjá það. “  

Ísland þurfti að verjast Serbum þegar þeir sóttu sjö sekúndum fyrir leikslok. Ef Serbar hefðu skorað hefðu örlög íslenska liðsins þegar verið innsigluð en þeir gerðu það ekki og því þurftu Íslendingar að bíða eftir úrslitum hjá Krótum og Svíum.

„Ég hugsaði ekki út í það. Ég held að þeir sem voru að horfa hafi verið stressaðri. Þeir settu sjöunda manninn inn á en við þurftum að koma þeim í erfitt skot. Serbinn skaut einhvern veginn fram hjá síðunni á mér og Bjöggi náði að setjast á boltann. Var það mjög ljúft úr því sem komið var,“ sagði Bjarki Már Gunnarsson.

Bjarki Már Gunnarsson.
Bjarki Már Gunnarsson. Ljósmynd/HSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert