Leikmenn verða að líta í eigin barm

Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson fara yfir málin.
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson fara yfir málin. Ljósmynd/Gordan Lausic

„Við getum ekki alfarið skellt skuldinni vegna niðurstöðunnar á EM á Geir Sveinsson landsliðsþjálfara. Í leiknum við Serba fannst mér vandinn ekki síður liggja hjá leikmönnum liðsins. Þeir verða að líta í eigin barm,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær til að velta fyrir sér stöðu íslenska landsliðsins og þjálfara þess, Geirs Sveinssonar, nú þegar liðið er úr leik á EM.

„Ég var ekkert bjartsýnn fyrir mótið. Leikirnir við Þjóðverja sýndu hver staðan er og var hjá okkur. Við erum að fara í gegnum kynslóðaskipti og erum talsvert á eftir bestu liðum Evrópu,“ sagði Arnar og bætti við að e.t.v. hefði góður sigur á Svíum í upphafsleik riðlakeppninnar á föstudag gefið ranga mynd.

„Síðan sköpuðust væntingar við sigurinn á Svíum sem voru kannski falsvonir. Króataleikurinn var erfiður, það var alla tíð ljóst, en viðureignin við Serba var okkar tækifæri. Serbar eru ekkert með sérstakt lið og þess vegna voru úrslitin í leiknum við þá mikil vonbrigði,“ sagði Arnar, sem bendir m.a. á að Serbar hafi verið án nokkurra öflugra leikmanna sem annaðhvort væru meiddir eða gæfu ekki kost á sér lengur.

„Við áttum að vinna leikinn við Serba vegna þess þeir hafa ekki á að skipa sterku liði um þessar mundir. Það er slæmt að okkur tókst ekki að standa í fæturna, ekki síst eftir að hafa náð ágætu forskoti snemma í síðari hálfleik,“ sagði Arnar.

Sjá allt viðtalið við Arnar og fleiri sem tjá sig um íslenska landsliðið í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.