„Þessi er einn af þeim sætari“

„Engan æsing drengir.
„Engan æsing drengir." Erlingur heldur ró sinni en lærisveinarnir fyrir aftan virðast á háa c-inu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson hlýtur að teljast sigurvegari kvöldsins á fyrsta keppnisdegi EM karla í handknattleik eftir að hafa skellt gestgjöfunum Ungverjum með lið Hollands fyrir framan rúmlega 20 þúsund manns í Búdapest. 

„Þessi er einn af þeim sætari. Ekki bara sigurinn sem slíkur heldur hvar við erum. Við erum hérna í einni glæsilegustu höll í Evrópu og það er fullt hús af fólki. Við erum á útivelli en við leiðum allan leikinn,“ sagði Erlingur þegar mbl.is náði í skottið á honum skömmu eftir að hann gekk af velli. 

„Mér líður alveg svakalega vel. Ég verð að viðurkenna það. En við erum svo sem komnir í ágæta stöðu með þetta lið. Við höfum sýnt að við getum unnið stórar þjóðir og töpuðum bara einum leik í riðlakeppninni.“

Erlingur bendir á að í kvöld hafi tvö ólík lið mæst því Ungverjarnir eru með marga hávaxna og nokkuð þunga leikmenn en Hollendingarnir eru lágvaxnari en snarpari.

„Þeir komu með nokkur áhlaup en við náðum alltaf að mjatla mörkum inn. Við náðum að halda haus og varnarleikurinn var frábær í fyrri hálfleik. Leikmannahópurinn er svo skemmtilega sóknarþenkjandi. Meðalhæðin hjá leikmönnunum fyrir utan hjá okkur er 1,85 m og við vorum að keppa á móti tveggja metra mönnum. Það er svolítið skemmtilegt að sjá mismunandi útgáfur af handbolta. Þeir eru með stóra og sterka leikmenn og frábæra línumenn sem við lentum í basli gegn. Við þurfum að leita annarra leiða til að skora.

Nú er Ísland næsta verkefni hjá okkur. Ég veit að mikið er undir hjá Íslandi á mótinu. Þeir eru búnir að gera allt til að reyna að komast langt í þessu móti. Við verðum alveg pressulausir á móti þeim en Ísland verður með alla pressuna á bakinu.

Sigurinn í kvöld var afskaplega sætur fyrir hollensku leikmennina sem …
Sigurinn í kvöld var afskaplega sætur fyrir hollensku leikmennina sem staðið hafa í skugganum af hollensku konunum sem náð hafa toppárangri. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Erlingur hefur verið lengi í handboltanum. Lék með ÍBV sjálfur, tók íþróttakennaranámið auk þjálfaramenntunarinnar og hefur þjálfað í mörg ár. Að stýra landsliði á stórmóti fyrir framan rúmlega 20 þúsund manns er kannski eins og einhvers konar verðlaun eftir alla vinnuna? 

„Jú jú en það er samt svo skrítið að þegar maður er kominn í þessar aðstæður þá nær maður einhvern veginn að loka sig frá áreitinu af áhorfendapöllunum. Ég kynntist því að stýra Fücshe Berlin í stórum höllum. Okkur tókst nokkuð vel að brynja okkur fyrir aðstæðunum í dag og vera í núinu inni á vellinum. Það var eitthvað sem við lögðum upp með að reyna. Að vera saman í þessu inni á vellinum og eyða ekki orku í annað. En við áttum reyndar appelsínugulan hóp í stúkunni og leituðum einnig til þeirra,“ sagði Erlingur en hann minntist fyrr á að pressan væri ekki á Hollendingum. Blaðamanni fannst athyglisvert hvernig Hollendingar brugðust við á lokaflanum. Þá var meðbyr með heimamönnum sem minnkuðu muninn niður í eitt mark oftar en einu sinni og tókst loks að jafna þegar lítið var eftir.

Þótt forskot Hollendinga væri farið þá misstu þeir ekki kjarkinn. Létu vaða þegar tækifæri gafst til og héldu áfram að keyra hratt á Ungverjana við  aðstæður þar sem mönnum hættir til að ýta ósjálfrátt á bremsuna. Með öðrum orðum þá þorðu þeir að sækja sigurinn og þorðu sækja óvænt úrslit. 

„Já eins og ég sagði áðan þá eru þessir leikmenn svo árásargjarnir og sóknarþenkjandi. Við erum með Luc Steins sem er aðalleikstjórnandi París St. Germain. Hann er alger sigurvegari og ætlar sér hlutina. Svo erum við með Kay Smits sem er hjá Magdeburg. Þetta eru engir aular. En samsetningin á liðinu er kannski öðruvísi en hjá öðrum. Við megum kætast yfir þessu og þetta er stór sigur fyrir Hollendinga. Þetta er stórt augnablik fyrir þá. Nú er bara að halda áfram að njóta og halda áfram að sýna öðrum að þessir strákar séu þess verðugir að vera hérna,“ sagði Erlingur Richardsson ennfremur við mbl.is í MVM höllinni í kvöld.

mbl.is