Ísland hafnaði í sjötta sæti á EM

Ísland þurfti að sætta sig við grátlegt 33:34-tap fyrir Noregi eftir framlengdan leik þegar liðin kepptu um fimmta sætið á EM 2022 í Búdapest í Ungverjalandi í dag. Noregur tryggði sér þar með sæti á HM á næsta ári en Ísland þarf að fara í umspil um sæti á mótinu.

Norðmenn tóku snemma öll völd og voru komnir í þriggja marka forystu, 3:6, eftir tæplega tíu mínútna leik.

Ísland náði að minnka muninn niður í 5:6 en Noregur náði ávallt að komast í þriggja marka forystu á ný.

Ómar Ingi Magnússon skoraði 10 mörk og var valinn maður …
Ómar Ingi Magnússon skoraði 10 mörk og var valinn maður leiksins í leikslok. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eftir tæplega 19 mínútna leik náðu Norðmenn fjögurra marka forystu í fyrsta sinn í leiknum, 7:11, og varnar- og sóknarleikur Íslendinga í talsverðum ólestri.

Norðmenn voru á hinn bóginn sterkir í vörninni og knúðu þannig Íslendinga til þess að tapa fjölda bolta í sókninni.

Auk þess var norska liðið öflugt sóknarlega og virtust raunar flestar sóknir þeirra enda með marki. Það þrátt fyrir að Viktor Gísli Hallgrímsson hafi staðið vel fyrir sínu í marki Íslands með því að verja sjö skot í fyrri hálfleik.

Norðmenn voru við stjórn allt til enda hálfleiksins og leiddu með fjórum mörkum, 12:16, í leikhléi.

Elvar Örn Jónsson sækir að norsku vörninni.
Elvar Örn Jónsson sækir að norsku vörninni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísland hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti og var fljótlega búið að minnka muninn niður í aðeins eitt mark, 17:18.

Norðmenn brugðust við því með því að skora þrjú mörk í röð og náðu þar með fjögurra marka forystu á ný.

Íslendingar voru þó ekki á því að gefast upp og náðu aftur að minnka niður í eitt mark, 22:23.

Íslandi auðnaðist loks að jafna metin eftir tæplega 49 mínútna leik. Staðan orðin 24:24 og því allt í járnum það sem eftir lifði leiks.

Þegar rúm mínúta lifði leiks náði Ísland forystunni, 27:26, í fyrsta sinn í leiknum frá því að liðið komst í 2:1, en Norðmenn jöfnuðu metin strax í næstu sókn.

Síðustu sóknir beggja liða fóru hins vegar í vaskinn og staðan því 27:27 að loknum venjulegum leiktíma. Þar með þurfti að grípa til framlengingar.

Minnstu mátti muna að Elvar Örn Jónsson tryggði Íslandi sigur þegar Ýmir Örn Gíslason fyrirliði vann boltann í lokasókn Noregs, Elvar Örn var fljótur að hugsa og kastaði boltanum yfir allan völlinn en skotið rétt framhjá auðu markinu og leiktíminn rann út.

Janus Daði Smárason svífur í gegnum vörn Norðmanna.
Janus Daði Smárason svífur í gegnum vörn Norðmanna. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Í framlengingunni var áfram allt í járnum þar sem liðin náðu mest eins marks forystu. Harald Reinkind skoraði síðasta mark leiksins á lokasekúndu 70. mínútu leiksins í síðari hluta framlengingar og tryggði þannig Norðmönnum sigurinn.

Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn fyrir Ísland. Skoraði hann tíu mörk í dag og var valinn maður leiksins að honum loknum.

Er Ómar Ingi langmarkahæsti leikmaður EM með 59 mörk.

Janus Daði Smárason sneri þá feykilega öflugur aftur eftir að hafa verið í einangrun undanfarna sex daga og skoraði átta mörk, þar af fjögur í framlengingunni.

Elvar Örn var þá frábær bæði í vörn og sókn. Skoraði hann sex mörk úr sjö skotum í sókninni og braut í fjölda skipta löglega af sér í vörninni.

Sander Sagosen reyndist íslensku vörninni oft erfiður og skoraði átta mörk. Næstur á eftir honum kom Reinkind með sex mörk.

Ómar Ingi Magnússon skýtur að marki Norðmanna í leiknum í …
Ómar Ingi Magnússon skýtur að marki Norðmanna í leiknum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Umspil um sæti á HM í sumar

Sæti á HM 2023 í Póllandi og Svíþjóð var í boði fyrir sigurvegarann í leiknum um fimmta sætið og kom það sem áður segir í hlut Noregs þrátt fyrir magnaða endurkomu Íslands í síðari hálfleik í leik dagsins.

Umspil bíður því Íslands í sumar þar sem liðið mun spila tvo leiki, heima og að heiman.

Ljóst er að Ísland verður í efri styrkleikaflokki í umspilinu og getur því ekki mætt sterkum þjóðum á borð við Króatíu, Þýskalandi, Ungverjalandi, Hollandi, Svartfjallalandi, Rússlandi, Serbíu eða Tékklandi.

Ísland 33:34 Noregur opna loka
70. mín. Janus Daði Smárason (Ísland) skoraði mark Áttunda mark Janusar Daða! Þrumuskot upp í samskeytin nær!
mbl.is

Bloggað um fréttina