Met Ólafs Stefánssonar fallið

Ómar Ingi Magnússon skorar eitt af tíu mörkum sínum gegn …
Ómar Ingi Magnússon skorar eitt af tíu mörkum sínum gegn Noregi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íþróttamaður ársins 2021, Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon, fór á kostum á EM í handbolta og lítur allt út fyrir að hann endi sem markakóngur mótsins.

Ekki nóg með það að Ómar sé svo gott sem orðinn markakóngur, heldur bætti hann einnig 20 ára gamalt met Ólafs Indriða Stefánssonar yfir fjölda marka skoruð af Íslendingi á einu Evrópumóti.

Ólafur skoraði 58 mörk og varð markakóngur á EM í Svíþjóð árið 2002 þegar Ísland endaði í fjórða sæti. Ómar Ingi skoraði 59 mörk á mótinu í ár en það er nýtt met.

Þangað til leik Danmerkur og Frakklands um bronsverðlaunin lýkur er Ólafur eini Íslendingurinn sem hefur orðið markakóngur EM. Skori Mikkel Hansen, leikmaður Dana, minna en 12 mörk í leiknum verður Ómar fyrstur til að leika afrek Ólafs eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert