Þetta var sturlun

Ýmir, fyrir miðju, stendur vörnina í kvöld.
Ýmir, fyrir miðju, stendur vörnina í kvöld. Ljósmynd/EHF

„Það eru miklar tilfinningar,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, línu- og varnarmaður Íslands í handbolta, í samtali við mbl.is eftir ótrúlegt jafntefli við Serbíu, 27:27, í fyrsta leik á EM í Þýskalandi.

Serbía var tveimur mörkum yfir og með boltann þegar tæp mínúta var eftir, en Íslandi tókst að ná í annað stigið með ótrúlegum lokakafla.

„Það er erfitt að segja hvernig manni líður. Stig er stig og miðað við hvernig þetta leit út í lokin tökum við þessu stigi fagnandi og förum áfram inn í næsta leik,“ bætti Ýmir við.

Liðin voru lengi í gang, því staðan var 2:2 eftir tíu mínútur. Markverðir beggja liða lokuðu þá rammanum.

„Báðir markverðir voru frábærir í fyrri hálfleik og þetta var leikur markvarða í fyrri hálfleik. Þetta opnaðist svo aðeins í seinni og við fáum á okkur skítamörk þar sem við í vörninni eða markvörðurinn klikkar.

Það er erfitt að lifa með því núna, en maður verður að sætta sig við það, núna þegar leikurinn er búinn,“ sagði Ýmir. Tæplega 4.000 Íslendingar voru í stúkunni í Ólympíuhöllinni í München og var stemningin rosaleg.

Þá fær maður aukakraft

„Þetta var sturlun. Við erum með mörg þúsund Íslendinga hérna og það er ótrúlegt að horfa á þetta. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem koma, ár eftir ár. Það var svekkjandi að ná ekki að skila tveimur stigum fyrir þau.

Þau verða að sætta sig við eitt í dag og við tökum tvö fyrir þau næst. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta gefur okkur mikið. Við vorum þremur undir og þá er gott að horfa upp í stúku og það byrja allir með enn meiri læti. Þá fær maður aukakraft,“ útskýrði Ýmir.

Einar Þorsteinn Ólafsson kom sterkur inn í blálokin og átti sinn þátt í að íslenska liðið náði að knýja fram jafntefli. „Ég hafði trú á þessu. Það var hárrétt að segja Einar Þorstein inn. Ég er rosalega ánægður með þetta eina stig núna. Ég er að átta mig á því,“ sagði Ýmir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert