„Fyrst við unnum er allt í sóma“

Andreas Wolff, markmaður þýska landsliðsins í handbolta, og Alfreð Gíslason, …
Andreas Wolff, markmaður þýska landsliðsins í handbolta, og Alfreð Gíslason, þjálfari þess, fagna í leiknum gegn Íslandi. Wolff var valinn maður leiksins. AFP/Ina Fassbender

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska landsliðsins í handbolta, sagði eftir sigurleikinn gegn Íslandi að það myndi engin eftirmál hafa í fjölskyldu hans þótt skyldmenni hans í stúkunni skyldu hafa klæðst treyju íslenska landsliðsins, en ekki þess þýska.

Fyrir leikinn í gær hafði Alfreð sagt að hann myndi taka það „mjög persónulega“ yrði fjölskyldan ekki í þýsku treyjunni, að sögn þýska blaðsins Kicker. „Fyrst við unnum er allt í sóma,“ sagði Alfreð eftir leikinn.

Hefur Kicker einnig eftir Alfreð að fjölskyldan hafi stutt sig í meira en 15 ár sem leikmann og í rúm 20 ár sem þjálfara og það hefði verið langt gengið að ætlast til af þeim að sitja í íslenska hluta stúkunnar í þýskum landsliðstreyjum.

Í frétt Kicker kemur einnig fram að þegar farið var að leika furðulega útgáfu af íslenska þjóðsöngnum fyrir leikinn hafi Alfreð látið stjórnendur í höllinni vita að þetta gengi ekki. 

„Þetta var einfaldlega vitlaus þjóðsöngur, sem enginn Íslendingur þekkti,“ sagði Alfreð eftir nauman sigur sinna manna á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert