Tek því hlutverki sem mér er gefið

Ýmir Örn Gíslason.
Ýmir Örn Gíslason. AFP/Ina Fassbender

„Hann leggst mjög vel í mig, þetta er leikur sem við verðum að vinna og það er að sjálfsögðu markmiðið,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Köln í Þýskalandi í gær.

Ísland mætir Frakklandi í öðrum leik sínum í milliriðli 1 í Lanxess-höllinni í Köln í dag en Ísland er án stiga í milliriðlinum á meðan Frakkland er í efsta sætinu með 4 stig.

„Við eigum eftir að setjast aðeins yfir þá en eins og staðan er núna þá er ég mjög spenntur fyrir leiknum. Við leyfðum okkur að vera svekktir eftir Þjóðverjaleikinn og kvöldið var erfitt en núna er nýr dagur og það er ekkert annað í boði en að halda áfram og gíra sig upp í næsta leik,“ sagði Ýmir.

Tapið eina sem skiptir máli

Ýmir átti frábæran leik gegn Þjóðverjum í fyrsta leik liðsins í milliriðli 1 og var á meðal bestu leikmanna íslenska liðsins en leiknum lauk með naumum sigri Þjóðverja, 26:24.

„Tapið er það eina sem skiptir máli og einstaklingsframmistöður skipta litlu sem engu máli ef þú vinnur ekki leikina sem þú spilar. Auðvitað verður svekkelsið kannski aðeins meira þegar þú spilar vel en ég er alveg jafn pirraður yfir tapinu. Ég sofnaði seint í gærkvöldi þannig að dagurinn í dag fer fyrst og fremst í það að slaka aðeins á og undirbúa sig fyrir þennan Frakkaleik.“

Kostur að vera með læti

Ýmir var ekki í stóru hlutverki hjá liðinu í fyrstu þremur leikjum liðsins á mótinu en kom inn með látum gegn Þjóðverjum.

„Það er einn af mínum kostum og karaktereinkennum skulum við segja að vera með mikil læti og láta vel í mér heyra inn á vellinum. Að sýna hlutina í verki og ganga hreint til verks. Á sama tíma treysti ég Snorra og þjálfarateyminu til þess að velja það lið sem hentar best hverju sinni og ég tek því hlutverki sem mér er gefið.“

Sex stig eftir í pottinum

Íslenska liðið getur ennþá náð markmiðum sínum á mótinu sem var að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fara í París næsta sumar.

„Það eru sex stig eftir í pottinum og það kemur ekkert annað til greina að taka þessi sex stig,“ bætti Ýmir við í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert