Fellaini líklega á förum

Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. AFP

Líklegt þykir að belgíski miðjumaðurinn Marouane Fellaini yfirgefi Manchester United í janúarglugganum.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Manchester-liðið sé reiðubúið að selja Fellaini, sem lítið hefur komið við sögu eftir að Ole Gunnar Solskjær settist í stjórastólinn. Fellani hefur aðeins spilað í 31 mínútu frá því Solskjær tók við United og var ekki valinn í 18 manna hópinn fyrir leikinn á móti Tottenham um síðustu helgi.

Fellani, sem er 31 árs gamall, skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Manchester United í fyrra. Ítalska liðið AC Milan, Porto frá Portúgal og kínverska liðið Guangzhou Evergrande eru sögð hafa áhuga á því að fá Belgann til liðs við sig en verðmiðinn á honum er líklega um 15 milljónir punda.

mbl.is