Hvers konar fyrirliði er þetta? (myndskeið)

Granit Xhaka, fyrirliði Arsenal, var tekinn af velli í seinni hálfleik er liðið gerði 2:2-jafntefli við Crystal Palace á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Xhaka var lítið að flýta sér af vellinum, stuðningsmönnum Arsenal til mikillar gremju. 

Var baulað á Xhaka er hann gekk af velli og brást hann illur við, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Tómas Þór Þórðarson ræddi málið við Bjarna Þór Viðarsson og Magnús Má Einarsson í Vellinum á Síminn Sport í kvöld. 

„Hann labbar af vellinum og biður um að láta baula á sig. Hvers konar fyrirliði er þetta?“ spurði Magnús Már. 

„Við höfum talað um Xhaka áður og hann er ágætis leikmaður en hann er ekki leikmaðurinn sem á að bera uppi miðjuna hjá Arsenal. Ég er ekki sáttur að það sé baulað á leikmanninn á eigin heimavelli en það er ekki gott hvernig hann bregst við,“ bætti Bjarni við. 

Einnig er farið yfir mark sem Arsenal skoraði í stöðunni 2:2 sem var ekki dæmt gilt af óskiljanlegri ástæðu. 

Hér fyrir ofan má sjá innslagið í heild sinni. 

mbl.is