Gylfi um Lukaku: Mjög fáir varnarmenn sem ráða við hann

„Það er martröð að dekka mann eins og hann því ef þú ert of nálægt honum þá bara snýr hann á þig,“ sagði Gylfi Einarsson í Vellinum á Símanum Sport í gær þegar rætt var um Romelu Lukaku, nýjasta leikmann Chelsea.

Lukaku gekk til liðs við Chelsea frá Inter Mílanó á dögunum fyrir 100 milljónir punda en það tók framherjann fimmtán mínútur að skora sitt fyrsta mark fyrir Chelsea gegn Arsenal í gær.

Belgíski framherjinn var frábær í leiknum og tók mikið til sín en Lukaku þekkir vel til hjá enska félaginu eftir að hafa verið í herbúðum liðsins frá 2011 til ársins 2014.

„Það eru mjög fáir varnarmenn í heiminum í dag sem ráða við þennan styrk sem Lukaku býr yfir,“ sagði Gylfi.

„Þess vegna þurfa miðjumennirnir að hjálpa til og vinna fyrir framan hann þegar lið mæta Chelsea.

Það vantaði alveg hjá Arsenal og þeir voru einfaldlega bara linir,“ sagði Gylfi meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert