Rosberg lang fljótastur

Nico Rosberg á Mercedesbílnum í Barcelona.
Nico Rosberg á Mercedesbílnum í Barcelona. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes ók langhraðast við æfingar formúluliðanna sem hófust í Barcelona í gær, tveimur dögum eftir Spánarkappaksturinn sem hann vann örugglega.

Rosberg lagði og að baki flesta hringi í brautinni eða 146, sem er rúmlega tvöföld lengd kappaksturs. Besti hringur hans mældist 1:24,374 mín. en næsti maður, Marcus Ericsson hjá Sauber, ók best á 1:26,624, eða meira en tveimur sekúndum hægar. 

Alls voru níu ökumenn við æfingar á fyrsta deginum, þar af fjórir reynsluökumenn. Fimm þeirra óku á annað hundrað hringja. Næst flesta ók ungur franskur ökumaður, Pierre Gasly sem keppir í GP2-mótaröðinni. Hann ók fyrir Toro Rosso í gær en ekur fyrir Red Bull í dag.  Setti hann sjöunda besta tímann og lagði 131 hring að baki.

Ungur ökumaður, Raffaele Marciello, sinnti akstri fyrir Ferrari og setti þriðja besta hringinn, á 1:26,648 mín. Ók hann alls 125 hringi. Daniil Kvyat hjá Red Bull setti fjórða besta tímann, 1:26,904, og hann ók 101 hring. 

PastorMaldonado hjá Lotus setti fimmta besta tímann, 1:27,338, og NickYellovly hjá ForceIndia þann fimmta, 1:27,396 mín. Var þetta í fyrsta sinn sem hann spreytir sig á bíl úr formúlu-1 við þróunarakstur.

Felipe Massa hjá Williams átti áttunda besta hringinn (1:27,911) og Oliver Turvey hjá McLaren rak lestina á lista yfir hröðustu hringina, náði best 1:28,542 mín. Þeir tveir óku langminnst, Massa 54 hringi og Turvey 68, eða rétt rúmlega keppnislengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert