Hanskinn mælir líffræðilega starfsemi

Lewis Hamilton skrýðist keppnishönskum.
Lewis Hamilton skrýðist keppnishönskum.

Ökumenn formúlu-1 munu skarta alveg nýjum hönskum á æfingum og í keppni í ár. Er um að ræða hátækni hanska sem nema munu líffræðilega tölfræði ökumanna.

Örlitlir skynjarar í hönskunum munu gera þessar mælingar á starfsemi líffræðikerfa  og sýna m.a.  hjartslátt, súrefnismagn í blóði, líkamshita og öndunartíðni. 

Gögnin úr mælingunum eru til dæmis talin geta reynst afgerandi við greiningu á ástandi ökumanns við slys í akstri.

Ökumenn Mercedes, Ferrari og Red Bull munu hafa prófað frumgerð hanskanna á kappaksturshelginni í Búdapest í fyrra. Útbreiddasta blað Þýskalands, Bild, segir að hanskinn verði klár í endanlegri mynd áður en nýtt formúulutímabil rennur upp í byrjun mars en skylt verði þó ekki að nota hann fyrr en 2019.

mbl.is