Bíllinn óþægilegur íveru

Robert Kubica við reynsluakstur á Williamsbílnum á kappaksturshelginni í Barcelona.
Robert Kubica við reynsluakstur á Williamsbílnum á kappaksturshelginni í Barcelona. AFP

Illa fer um ökumenn Williamsliðsins í keppnisbílunum, að því er reynsluökumaðurinn Robert Kubica staðfestir.

Það er því fleira en skortur á bílhraða sem þjakar Williamsmenn.

Í Barcelonakappakstrinum og æfingum hans og tímatöku kvartaði Sergej Sírotkín undan „sætisóþægindum“. „Til að móðga engan skulum við segja að vandamálið snúist um sætisþægindi,“ sagði Sírotkín. 

Hermt er að Lance Stroll líði sambærilegar þjáningar í stjórnkelfanum og þykir Kubica staðfesta það. „Þægindin eru ekki mikil í bílnum, en það hefur verið vitað frá í nóvember,“ segir hann.

mbl.is