Hraðskreiðastur á hörðustu dekkjunum

Lewis Hamilton á Mercedes ók einnig hraðast á seinni æfingu dagsins í Austurríki sem þeirri fyrri. Til þess er tekið að besta hringinn setti hann á hörðustu dekkjunum sem úr var að spila.

Aftur varð liðsfélagi hans Valtteri Bottast næstfljótastur en á þeim munaði rúmri tíund úr sekúndu. Voru þeir sömuleiðis efstir á lista yfir hröðustu hringi á morgunæfingunni.

Að þessu sinni tók Ferrari við af  Red Bull sem helstu keppinautar Mercedes því Sebastian Vettel átti þriðja besta hringinn og var aðeins tveimur tíundu frá topptíma Hamiltons.

Daniel Ricciardo og Max Verstappen hjá Red Bull urðu í fjórða og fimmta sæti á framangreindum lista, en vantaði góða hálfa sekúndu til að komast í tæri við topptímann.

Kimi Räikkönen á Ferrari átti sjötta besta tímann og næstir honum urðu Haas-félagarnir Romain Grosjean og Kevin Magnussen í sjöunda og áttunda sæti. Fyrsta tuginn fylltu síðan Pierre Gasly á Toro Rosso og Stoffel Vandoorne á McLaren, en hann var 1,3 sekúndum frá tíma Hamiltons.

Gasly varð fyrir því óláni að brjóta framfjöðrun er hann ók upp á beygjubrík. Flaug bíll hans út í sandgryfju og festist þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert