Hundskamma Vettel

Sebastian Vettel á fereð í þýska kappakstrnium.
Sebastian Vettel á fereð í þýska kappakstrnium. AFP

Ítalskir fjölmiðlar fóru hamförum í gagnrýni sinni á Sebastian Vettel vegna brottfallsins úr þýska kappakstrinum í Hockenheim og segja hann hafa varpað öruggum sigri fyrir róða.

Vettel var með mikið  forskot of á góðri leið til sigurs á heimavelli er Ferrarifákurinn rann skyndilega út úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg.

„Myrkur dagur á ferli hans,“ sagði landi hans og heimsmeistari 2016, Nico Rosberg. „Hann var með heimasigur í höndunum og gott tækifæri til að auka forskot sitt á Lewis  Hamilton en kastaði því öllu á glæ,“ bætti hann við.

Ítalska pressan vægði ekki Vettel. „Mistök hans voru tortíming og gætu orðið til þess að Ferrari tapi keppninni um heimsmeistaratitlana,“ sagði íþróttadagblaðið La Gazzetta dello Sport.

Blaðið La Stampa bætti við: „Þjóðverjinn hefur gert að minnsta kosti fjögur mistök í ellefu mótum. Hæfileikar heimsmeistarans eru ekki dregir í ef, en ofurtáp hans er farið að skaða Ferrari.“

Corriere della Sera bar lof á Lewis Hamilton ökumann Mercedes fyrir „meistaralegan  sjálfbirgingshátt og einbeitni“ er hann ók úr sæti aftarlega á rásmarkinu til sigurs og endurheimti með því forystuna í titilslagnum við Vettel. „Framganga tveggja stjörnuökumannanna ríður baggamuninn,“ bætti blaðið við.

Vettel fékk þó stuðning úr einni og óvæntri átt, frá keppinaut sínum Max Verstappen hjá Red Bull. Mistök Vettels „hefðu getað hent okkur alla við þessar aðstæður,“ sagði hann.

„Ég þarf enga meðaumkun, þetta voru mín mistök,“ sagði Vettel. „Þegar allt gengur vel er manni klappað á bakið, en gagnrýnin dynur á manni þegar mistök eru gerð. Ég læt mig frekar litlu varða hvað fólk segir, ég þarf að vera sáttur við sjálfan mig.“

mbl.is