Enn ríkir óvissa um meiðsli Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Everton. Ljósmynd/twitter

Ekki lá ljóst fyrir í gærkvöld hve alvarleg hnémeiðsli Gylfa Þórs Sigurðssonar eru en þessi lykilmaður Everton og landsliðsins í knattspyrnu meiddist í leik í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.

Í fréttatilkynningu Everton kom fram að Gylfi hefði átt að fara til skoðunar hjá sérfræðingi í gærkvöld en niðurstöður úr þeirri skoðun höfðu ekki verið gerðar opinberar þegar Morgunblaðið fór í prentun.

Í tilkynningu Everton segir að svo gæti farið að Gylfi yrði frá keppni í nokkrar vikur vegna meiðslanna. Hann meiddist í fyrri hálfleik í 2:0-sigri á Brighton en lék til loka leiksins þrátt fyrir það.

Morgunblaðið leitaði álits hjá Gauta Grétarssyni sjúkraþjálfara, sem þjálfaði Gylfa þegar hann var yngri, en Gauti sagði í raun ómögulegt að segja strax til um hvers kyns meiðslin væru og hve lengi Gylfi kæmi til með að vera frá keppni.

„Það er náttúrlega verst að hann skuli hafa verið látinn spila áfram eftir þetta. Þetta er áverki og svo er hjakkast á þessu, og það safnast upp vökvi. Maður veit ekkert um það hver staðan er, vökvinn er bara svo mikill fyrst á eftir að það er ekki hægt að skoða þetta. En þegar eitthvað svona gerist og menn hjakkast á þessu áfram er alltaf hætta á að skemma eitthvað meira,“ sagði Gauti við Morgunblaðið.

Sjá allt viðtalið við Gauta í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag