Arnór glímir við ökklameiðsli

Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, fór meiddur af velli í leik Malmö gegn Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á föstudagskvöldið.

Jesper Robertsson, sjúkraþjálfari Malmö, sagði við Sydsvenskan í dag að dálítil óvissa væri með meiðsli Arnórs.

„Hann glímir við meiðsli í ökkla sem hann varð í raun fyrir í bikarleik um daginn. Ef hann er óheppinn er þetta ný tognun og þá gæti hann verið tíma að jafna sig á því. En við vonumst til að hann geti spilað fljótlega, jafnvel strax á miðvikudaginn. Við eigum eftir að sjá betur hvernig ökklinn bregst við,“ sagði Robertsson.

Sydsvenskan segir að næstu vikur séu mikilvægari fyrir Arnór Ingva en marga aðra því hann sé að berjast um sæti í HM-hópi Íslands.

„Það er jákvætt að ökklinn skuli bregðast vel við eftir æfingu og leik, í kjölfarið á okkar meðhöndlun. Vonandi náum við að meðhöndla þetta vel,“ segir sjúkraþjálfarinn.

Leikur Sundsvall og Malmö endaði 2:2 og meistaralið Malmö er í fimmta sæti eftir þrjár fyrstu umferðir deildarinnar með 5 stig. Liðið sækir Djurgården heim til Stokkhólms á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert