Samherji Íslendinga og fimm sem mættu Val

Alexandru Gatcan er einn besti leikmaður Moldóvu.
Alexandru Gatcan er einn besti leikmaður Moldóvu. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Moldóvu

Sennilega er lið Moldóvu það landslið sem Íslendingar vita minnst um af væntanlegum andstæðingum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í undankeppni Evrópumótsins 2020 á næsta ári.

Ísland dróst á sunnudaginn í riðil með Frakklandi, Tyrklandi, Albaníu, Moldóvu og Andorra og af þessum löndum er Moldóva það eina sem Ísland hefur aldrei mætt. Reyndar hafa yngri landslið Íslands oft leikið gegn Moldóvu í undanriðlum EM á undanförnum árum og ef þær viðureignir eru lagðar saman hefur Ísland unnið níu leiki en tvívegis orðið jafntefli.

Þær tölur segja hinsvegar lítið þegar liðin mæta til leiks í undankeppni EM 2020. Leikir þjóðanna fara ekki fram fyrr en næsta haust, Moldóva er síðasti andstæðingurinn sem Ísland mætir í fyrri umferðinni, á Laugardalsvelli 7. september, og þjóðirnar mætast aftur í lokaumferðinni í Moldóvu 17. nóvember.

Aðstoðarmenn Eriks Hamréns landsliðsþjálfara verða væntanlega búnir að greina lið Moldóvu „í tætlur“ áður en að þeim viðureignum kemur og þegar leikurinn fer fram á Laugardalsvelli verður komin þokkaleg mynd á stöðu þjóðanna í riðlinum. Ísland verður þá búið að spila við Andorra og Frakkland á útivelli og við Albaníu og Tyrkland á heimavelli. Moldóvar verða þá búnir að mæta sömu liðum í annarri röð.

Þrautreyndur frá Rostov

Næstleikjahæsti leikmaður moldóvska liðsins í dag, miðjumaðurinn Alexandru Gatcan, er samherji fjögurra Íslendinga hjá Rostov í Rússlandi en hann á meira en 300 leiki að baki í rússnesku úrvalsdeildinni. Hann er 34 ára gamall og fimmti leikjahæsti landsliðsmaður Moldóvu frá upphafi. Gatcan mun líklega ekki mæta Íslandi og samherjum sínum í Rostov því hann kvaddi landsliðið eftir síðasta leikinn í Þjóðadeildinni í nóvember.

Fimm þeirra sem hafa verið í landsliði Moldóvu undanfarna mánuði leika með Sheriff, meistaraliði landsins, sem sló Val naumlega út í 3. umferð Evrópudeildarinnar í sumar. Þrír þeirra, markvörðurinn Serghei Pascenco, varnarmaðurinn Veaceslav Posmac og miðjumaðurinn Gheorghe Anton, voru í liði Sheriff á Hlíðarenda, þar sem Valur vann 2:1, en varnarmaðurinn Petru Racu og framherjinn Alexandru Boiciuc sátu á bekknum allan tímann.

Þar með eru upptalin bein tengsl moldóvsku landsliðsmannanna við íslenskan fótbolta.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert