Mikilvægur sigur hjá Nígeríu

Liðsmenn Nígeríu fagna marki í dag.
Liðsmenn Nígeríu fagna marki í dag. AFP

Nígería heldur enn í vonina um að komast áfram í 16-liða úrslitin á HM kvenna í knattspyrnu eftir 2:0 sigur gegn Suður-Kóreu í A-riðli heimsmeistaramótsins sem spilaður var í Grenoble í Frakklandi í dag.

Fyrra markið sem kom á 29. mínútu var sjálfsmark sem Kim Doyeon skoraði. Vafi lék á því hvort boltinn hafi farið í hönd sóknarmanns Nígeríu áður en boltinn fór í markið en eftir að VAR myndbandstæknin sem stuðst var við sýndi að svo var ekki.

Nígería gerði svo út um leikinn á 75. mínútu þegar Asisat Oshoala skoraði annað markið eftir skyndisókn.

Nígería er þar með komið með þrjú stig eftir tvo leiki en Suður-Kórea er án stiga, hefur ekki skorað mark og á nánast enga möguleika á að komast áfram.

Í þessum sama riðli mætast Frakkland og Noregur á Stade de France leikvanginum glæsilega klukkan 19 í kvöld. Frakkland vann Suður-Kóreu 4:0 í fyrstu umferðinni og Noregur hafði betur gegn Nígeríu 3:0.

mbl.is