Mikil læti í stórsigri Barcelona

Það var mikill hiti á milli Barcelona og Sevilla.
Það var mikill hiti á milli Barcelona og Sevilla. AFP

Barcelona vann sannfærandi 4:0-sigur á Sevilla á heimavelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Þegar skammt var til leiksloka fékk Barcelona tvö rauð spjöld á tveimur mínútum. 

Luis Suárez kom Barcelona yfir á 27. mínútu og fimm mínútum síðar bætti Arturo Vidal við marki. Ousmane Dembélé kom Barcelona í 3:0 á 35. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. 

Lionel Messi bætti við fjórða marki Barcelona á 78. mínútu, en þrátt fyrir afar góða stöðu misstu Börsungar hausinn undir lokin. Ronald Araujo fékk beint rautt spjald á 87. mínútu og aðeins mínútu seinna fékk Dembélé einnig beint rautt spjald. 

Þrátt fyrir að vera tveimur mönnum fleiri náði Sevilla ekki að minnka muninn. Barcelona er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum minna en Real Madríd. Sevilla er í sjötta sæti með þrettán stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert