Vill komast burt frá Real Madrid

Gareth Bale er ósáttur með hlutskipti sitt hjá félaginu og …
Gareth Bale er ósáttur með hlutskipti sitt hjá félaginu og vill komast burt. AFP

Gareth Bale, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, vill yfirgefa félagið en það er fjölmiðlamaðurinn Guillem Balague sem greinir frá þessu. Bale var ekki í hópnum þegar Real Madrid gerði 2:2-jafntefli við Club Brugge í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku og er það kornið sem fyllti mælinn að sögn Balague.

Framtíð Bale hefur verið mikið í umræðunni allt frá því að Zinedine Zidane sneri aftur til félagsins. Í sumar greindi Zidane frá því að Bale ætti enga framtíð hjá félaginu og að hann vonaðist til þess að kantmaðurinn færi. Bale var nálægt því að ganga til liðs við kínverska úrvalsdeildarliðið Jiangsu Suning í sumar en skiptin duttu upp fyrir á síðustu stundu.

Spænska dagblaðið AS hefur eftir Balague að Bale sé orðinn þreyttur á lífinu á Spáni. Honum finnst hann ekki fá þá virðingu sem hann á skilið og framkoma Zidane við hann sé fyrir neðan allar hellur. Þrátt fyrir að Bale væri ekki í hóp gegn Club Brugge var honum skipað að mæta á leikinn og fylgjast með úr stúkunni.

Bale fékk engar útskýringar á því af hverju hann væri ekki í leikmannahópnum og hann mætti nokkrum mínútum of seint í stúkuna á leikinn. Bale er samningsbundinn Real Madrid til ársins 2022 en hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli, undanfarin þrjú ár. Bale gekk til liðs við Real Madrid árið 2013 og hefur einu sinni orðið Spánarmeistari með liðinu. Fjórum sinnum hefur hann fagnað sigri í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert