Hefðum gert jafntefli eða tapað á síðustu leiktíð

Jürgen Klopp þakkar markverði Genk fyrir leikinn í kvöld.
Jürgen Klopp þakkar markverði Genk fyrir leikinn í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var kátur eftir 4:1-sigur sinna manna á Genk í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Liverpool komst yfir í upphafi leiks og vann að lokum sannfærandi sigur. 

„Það voru góðir kaflar í þessu hjá okkur. Við byrjuðum virkilega vel og spiluðum skemmtilegan bolta. Svo verðum við óþolinmóðir og reynum erfiðari sendingar. Mörkin voru hins vegar glæsileg og við hefðum getað skorað fleiri.

Þrátt fyrir að Liverpool ynni keppnina á síðustu leiktíð vann liðið ekki einn einasta útileik í riðlakeppninni. 

„Á síðustu leiktíð hefðum við gert jafntefli og jafnvel tapað þessum leik og ég er ánægður með að við höfum þroskast. Ég naut þess ekki sérstaklega að horfa á leikinn en ég er ánægður með úrslitin.“

Liverpool mætti Manchester United í síðustu umferð í ensku úrvalsdeildinni og næst á dagskrá er Tottenham. 

„Við erum búnir með tvo erfiða útileiki og nú verðum við að vera klárir gegn Tottenham á sunnudaginn. Tottenham vann stórsigur í gær, en við erum öðruvísi lið en Rauða stjarnan, rétt eins og Tottenham er öðruvísi lið en Genk, sagði Þjóðverjinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert