Stórkostlegur Messi skaut Barcelona á toppinn

Lionel Messi er ótrúlegur.
Lionel Messi er ótrúlegur. AFP

Lionel Messi sýndi enn og aftur hversu stórkostlegur knattspyrnumaður hann er þegar Barcelona vann 5:2-sigur á Mallorca á heimavelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. 

Antoine Griezmann braut ísinn fyrir Barcelona á 7. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði Messi sitt fyrsta mark. Ante Budimir minnkaði muninn tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks, en Barcelona bætti við tveimur mörkum fyrir hlé. 

Messi gerði það fyrra og Luis Suárez það seinna og var staðan í leikhléi 4:1. Budimir minnkaði muninn í 4:2 með sínu öðru marki eftir rúman klukkutíma, en Messi átti kvöldið. Argentínumaðurinn skoraði þriðja markið sitt og fimmta mark Barcelona á 83. mínútu og þar við sat. 

Barcelona er í toppsætinu með 34 stig, eins og Real Madríd. Liðin mætast í Barcelona þann 18. desember. 

mbl.is