Afþakkar laun frá knattspyrnudeildinni - vill gefa til baka

Milan Stefán Jankovic við undirritun samnings hjá Grindvíkingum.
Milan Stefán Jankovic við undirritun samnings hjá Grindvíkingum. Ljósmynd/Grindavík

Milan Stefán Jankovic, yfirmaður knattspyrnumála hjá Grindvíkingum, ætlar ekki að þiggja laun frá félaginu næsta mánuðinn vegna kórónuveirunnar sem setur strik sitt í reikninginn hjá fjölmörgum íþróttafélögum um þessar mundir.

Milan Stefán sneri aftur til Grindavíkur í vetur eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Keflvíkinga á síðasta tímabili. Hann hefur annars verið meira og minna í röðum Grindvíkinga frá því hann kom fyrst til landsins sem leikmaður árið 1992 og settist að í bæjarfélaginu.

Milan Stefán, eða Janko eins og hann er oftast kallaður, hefur verið búsettur á landinu í 28 ár og verður sextugur í næsta mánuði. Hann lék með Grindavík frá 1992 til 1998 og hefur síðan þjálfað hjá félaginu um árabil, var aðalþjálfari meistaraflokks karla 1999 til 2001, aftur á árunum 2005 til 2009 og 2013 til 2014, en hefur þar fyrir utan verið yfirþjálfari og séð um yngri flokka félagsins.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Grindavíkur og þar segir:

Við hjá knattspyrnudeildinni erum eins og aðrir Íslendingar sem eru með æfingar í hópíþróttum, bara "on hold" í þessu blessaða Covid 19 ástandi. Það þýðir engar æfingar í heilan mánuð hjá okkur sem þýðir engin verkefni fyrir hvorki þjálfara né leikmenn og alls óvíst hvort útspil ríkisstjórnarinnar nái yfir hlutastörf, sem þjálfarastörf eru í lang flestum tilfellum.

Við höfum aldrei upplifað svona ástand áður. Það eru mörg íþróttafélög á Íslandi að tapa mikið af sínum fjáröflunum og fá víða neikvæð svör þegar þau leita eftir styrkjum þ.a þetta ár og jafnvel næsta gæti orðið mörgum félögum erfitt. Félögin búin að gera samninga og margir lengri en eingöngu þetta ár.

Aðal erindi þessa þráðs snýst samt um Milan Stefán Jankovic, yfirmann knattspyrnumála hjá okkur, sem er að bregðast við þessu ástandi. Hann hafði samband við okkur að fyrra bragði og tilkynnti okkur það að hann ætlaði ekki að þiggja laun frá 15. mars til 15. apríl frá félaginu. Félagið hafi hjálpað honum mikið í gegnum tíðina og hann vill gefa til baka.

Við kunnum mikið að meta svona frumkvæði og þökkum Janko mikið vel fyrir örlætið.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert