Mistök að leyfa leik Liverpool og Atlético Madrid

Atlético vann leikinn á Anfield 3:2 og einvígið 4:2 samanlagt.
Atlético vann leikinn á Anfield 3:2 og einvígið 4:2 samanlagt. AFP

Matthew Ashton, framkvæmdastjóri heilbrigðismála í Liverpool-borg, segir að það hafi líklega verið mistök að koma ekki í veg fyrir að leikur Liverpool og Atlético Madrid í Meistaradeild Evrópu í fótbolta færi fram 11. mars.

Fjöldi smitaðra af kórónuveirunni hækkaði mjög hratt í Liverpool eftir 20. mars. Þann dag voru aðeins 14 staðfest smit í borginni en tveimur vikum síðar eru þau orðin 309. 

Þingmenn frá Liverpool og knattspyrnusérfræðingurinn og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Gary Lineker voru meðal þeirra sem settu spurningarmerki við það að þrjú þúsund stuðningsmönnum Atlético skyldi vera leyft að ferðast til Englands og vera á leiknum á Anfield en þá þegar var kórónusmitið orðið útbreitt í Madríd.

„Það var ekki rétt ákvörðun að leyfa að leikurinn færi fram. Fólk tekur ekki rangar ákvarðanir vísvitandi og kannski áttuðu stjórnvöld sig ekki á hversu alvarlegt ástandið var á þessum tíma. Enda þótt við fáum það aldrei staðfest er mjög líklegt að leikurinn gegn Atlético hafi verið einn þeirra viðburða í borginni sem urðu þess valdandi að útbreiðsla veirunnar jókst mjög hratt. Þetta er alla vega eitthvað sem fer í reynslubankann og mun kenna okkur að gera ekki svipuð mistök aftur,“ sagði Ashton við The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert