Neita Birkir og félagar að mæta til leiks?

Birkir Bjarnason skrifaði undir átján mánaða samning við Brescia í …
Birkir Bjarnason skrifaði undir átján mánaða samning við Brescia í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Massimo Cellino, forseti ítalska knattspyrnuliðsins Brescia, hefur hótað því að hans lið muni ekki mæta til keppni ef ákveðið verði að klára tímabilið í ítölsku A-deildinni. Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands, er samningsbundinn Brescia sem er í tuttugsta og neðsta sæti A-deildarinnar þegar tólf umferðir eru eftir af tímabilinu.

UEFA hélt fund í gær með öllum 55 aðildarfélögum sínum þar sem sérsamböndin voru hvött til þess að ljúka sínum deildarkeppnum frekar en að blása þær af. „Þetta tímabil er nú þegar farið út í veður og vind,“ sagði forsetinn í samtali við Gazzetta dello Sport. „Öllum leikjum var frestað og þau lið sem snúa aftur verða aldrei söm.

Það verður leikið fyrir luktum dyrum og þá er heilsa íþróttamannanna einnig í hættu. Það er bara brjálæði að ætla að hefja leik aftur núna að mínu mati. Ef við verðum neyddir til þess að spila þá er ég tilbúinn að mæta ekki til leiks með mitt félag, við töpum þá einhverjum leikjum, en ég mun gera þetta til þess að votta fórnarlömbum kórónuveirunnar virðingu mína,“ bætti forsetinn við.

Ítalía er það Evrópuland sem hefur farið verst úr úr kórónuveirunni. Alls hafa 115.242 smitast þar í landi og þar af er tala látinna komin upp í tæplega 14.000 manns. Brescia er á Langbarðalandi á Norður-Ítalíu en Langbarðaland er það hérað sem hefur farið verst út úr veirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert