Seldur á tombóluverði?

Forráðamenn Barcelona virðast vera búnir að sætta sig við það …
Forráðamenn Barcelona virðast vera búnir að sætta sig við það að þeir munu ekki fá upphæðina sem þeir borguðu Liverpool fyrir Philippe Coutinho í janúar 2018. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnuliðsins Barcelona vilja losna við brasilíska sóknarmanninn Philippe Coutinho í sumar. Coutinho gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool í janúar 2018 en spænska félagið borgaði 142 milljónir evra fyrir leikmanninn sem hefur engan veginn staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans.

Hann var lánaður til Þýskalandsmeistara Bayern München síðasta sumar en þýska félagið gaf það út á dögunum að það ætlaði sér ekki að nýta sér forkaupsrétt sinn á leikmanninum í sumar. Spænskir fjölmiðlar hafa fjallað um það að Barcelona vilji ekki selja leikmanninn fyrir minna en 120 milljónir evra og hefur það fælt önnur félög frá leikmanninum.

Enskir fjölmiðlar greina hins vegar frá því í dag að forráðamenn spænska félagsins séu nú tilbúnir að selja Coutinho fyrir 75 milljónir punda. Coutinho er orðinn 27 ára gamall en Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum vegna kórónuveirufaraldsins sem nú geisar og er því tilbúið að gera ýmislegt til þess að losna við leikmenn af launaskrá.

mbl.is