Eitt skemmtilegasta lið allra tíma

Heimsmeistararnir 1970.
Heimsmeistararnir 1970. Ljósmynd/AFP

Hálf öld er í dag síðan Brasilía sigraði í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu í Mexíkó. Brasilía vann Ítalíu 4:1 í úrslitaleiknum árið 1970 og er brasilíska liðsins gjarnan minnst sem eitt þeirra skemmtilegustu í sögu keppninnar. 

HM 1970 var fyrsta lokakeppni HM sem sjónvarpsáhorfendur fengu að sjá í lit í beinni útsendingu. Nútíminn var smám saman að ryðja sér til rúms í þeim bransa en keppnin var auk þess sú fyrsta sem ekki fór fram í Suður-Ameríku eða Evrópu.  Mikill ljómi hefur verið yfir keppninni fyrir hálfri öld. Í gegnum tíðina hafa margir fjölmiðlamenn haldið því fram að hún sé sú skemmtilegasta frá upphafi og brasilíska liðið það skemmtilegasta frá upphafi. Um slík atriði er endalaust hægt að þræta. 

Við miklu var búist af Brasilíumönnum enda höfðu þeir orðið heimsmeistarar bæði 1958 og 1962 en þeir þóttu ekki endilega sigurstranglegastir. Ekki gekk eins vel á HM 1966.

Lið Brasilíu hafði tekið breytingum.  Nú var Pele að nálgast þrítugt og var þeirra reyndasti maður en með unga og spræka menn með sér. Töluvert annað hlutverk hjá kappanum en þegar hann var 17 ára gamall á HM í Svíþjóð 1958 og gat komið á óvart. Hann lék geysilega vel fyrir liðið og lagði upp ófá marktækifærin fyrir samherjana. Pele sagði þó síðar frá því að keppnin hafi að sumu leyti verið óþægileg fyrir hann. Pressan að ná árangri hafi verið mikil. Hann var frægasti knattspyrnumaður í heimi en meiðsli höfðu sett strik í reikninginn hjá honum bæði á HM 1962 og 1966. 

Zagallo tók óvænt við

Þjálfari liðsins var Mario Zagallo en hann tók við liðinu árið 1970. Hann gerði ýmsar breytingar þegar hann reyndi að undirbúa liðið sem best undir HM 1970. Piazza var færður af miðjunni í vörnina og þeir Rivelino og Clodoaldo voru settir í byrjunarliðið. 

Forveri hans Joao Saldanha tók við liðinu árið 1969 og átti að stýra því árið 1970. Saldanha var skaphundur og illskeyttur við fjölmiðlamenn sem gagnrýndu hann. Var hann viðkvæmari fyrir gagnrýni en gengur og gerist í íþróttunum. Kornið sem fyllti mælinn var framganga hans eftir að þjálfari Flamengo gagnrýndi Saldanha og vinnubrögð hans hjá landsliðinu. Saldanha fór til fundar við þjálfara Flamengo og var vopnaður skambyssu. Atvikið varð til þess að hann var leystur frá störfum sem landsliðsþjálfari og Zagallo tók við. Þáverandi formaður brasilíska knattspyrnusambandsins var Joao Havelange sem síðar var forseti FIFA frá 1974 til 1998.  

Mario Zagallo árið 2006.
Mario Zagallo árið 2006. Ljósmynd/AFP

Undarleg atburðarás varð því til þess að Zagallo stýrði liðinu á HM 1970 með frábærum áranagri en hann hafði verið leikmaður í heimsmeistaraliðunum 1958 og 1962. 

Undirbúningurinn tók mið af HM 1966

Fyrirliðinn, Carlos Alberto, var einungis 25 ára gamall þegar lið Brasilíu stóð uppi sem sigurvegari árið 1970. Er hann yngsti fyrirliði sigurliðs á HM karla í knattspyrnu frá upphafi. 

„Við undirbjuggum okkur á áhugaverðan hátt fyrir HM 1970 vegna þess að á HM 1966 höfðum við orðið undir gegn kraftaknattspyrnunni svokölluðu. Þess vegna vann Brasilía ekki mótið 1966 þótt ég vilji ekki gera lítið úr öðrum liðum. Allra síst enska liðinu sem vann keppnina. Hins vegar var þetta lærdómur fyrir Brasilíumenn og við vorum betur búnir undir líkamleg átök þegar kom að keppninni 1970,“ sagði Alberto löngu síðar í viðtali við FIFA en hann var ekki valinn í liðið á HM 1966 og lokakeppnin 1970 var eina heimsmeistarakeppnin sem hann tók þátt í. 

„Við undirbjuggum okkur í þrjá mánuði fyrir lokakeppnina í Mexíkó 1970. Við vissum að tvær stærstu áskoranirnar yrðu kraftaknattspyrnan og loftslagið í Mexíkó. Við þóttumst vita að við værum nógu tæknilega góðir til að komast í úrslitaleikinn en líkamlegi þátturinn var meira spurningamerki,“ sagði Alberto einnig en hann var sá síðasti sem tók við styttunni sem þá var keppt um. Þar sem Brasilíumenn höfðu unnið hana þrívegis fékk brasilíska knattspyrnusambandið hana til eignar.

Fyrirliðinn Carlos Alberto með styttuna sem keppt var um í …
Fyrirliðinn Carlos Alberto með styttuna sem keppt var um í síðasta sinn á HM 1970. Ljósmynd/AP

Í liðinu voru í raun margir leiðtogar. Alberto var fyrirliði og Pele var sá sigldi og reyndi. Þá var Gérson leikstjórnandi liðsins og stjórnaði miklu í leikjunum. Hann lék með Botafogo í Ríó, liðinu sem Garrincha, hetjan frá HM 1962, lék með. 

Skoruðu nítján mörk á HM

Brasilíumennirnir gættu þess að verjast auk þess að undirbúa sig betur en áður undir líkamleg átök. En heimsmeistaraliðið árið 1970 var þó fyrst og fremst magnað sóknarlið sem hreif margan knattspyrnuáhugamanninn. Hvernig var svo sem annað hægt eftir frammistöðuna á HM? Liðið vann alla sex leiki sína og skoraði í þeim nítján mörk. 

Erfiðast var fyrir Brasilíumenn að finna leiðina að marki Englendinga í keppninni sem þá voru ríkjandi heimsmeistarar. Markvarðarins Gordons Banks er ekki síst minnst fyrir frammistöðu hans í leiknum gegn Brasilíu og tilþrifin þegar hann varði krafmikinn skalla Pele. Jairzinho fann þó leiðina framhjá Banks í 1:0 sigri eftir yfirvegaðan undirbúning Pele.  Jairzinho skoraði sjö mörk í keppninni og skoraði í öllum sex leikjunum. Slíkt hafði enginn afrekað áður og gerðist ekki í meira en fjörtíu ár. Draumaframmistaða í lokakeppni HM. 

Pele hylltur á HM 1970. Úrslitaleikurinn var hans síðasti landsleikur.
Pele hylltur á HM 1970. Úrslitaleikurinn var hans síðasti landsleikur. Ljósmynd/AP

Brasilíumennirnir sóttu þá frá vinstri til hægri eins og þeir gerðu í síðasta markinu sem þeir skoruðu í keppninni. Um leið er það eitt það eftirminnilegasta. Eftir fallega sókn þar sem níu leikmenn Brasilíu komu við sögu, renndi Pele aftur boltanum til hægri, og í þetta sinn kom fyrirliðinn Carlos Alberto á ferðinni og þrumaði knettinum í vinstra hornið og gulltryggði 4:1 sigurinn gegn Ítalíu í úrslitaleiknum. 

Úrslitin hjá Brasilíu í lokakeppninni: 

Riðlakeppnin í Guadalajara:

4:1 gegn Tékkóslóvakíu 

1:0 gegn Englandi 

3:2 gegn Rúmeníu

8-liða úrslit í Guadalajara: 

4:2 gegn Perú

Undanúrslit í Guadalajara:

3:1 gegn Úrúgvæ

Úrslitaleikur á Estadio Azteca í Mexíkó City: 

4:1 gegn Ítalíu

mbl.is