Ósammála um verðmiðann á íslenskum landsliðsmanni

Mikael Anderson á æfingu íslenska liðsins í september.
Mikael Anderson á æfingu íslenska liðsins í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Anderson hefur verið sterklega orðaður við brottför frá Danmerkurmeisturum Midtjylland í knattspyrnu en hann er samningsbundinn úrvalsdeildarliðinu til sumarsins 2023.

Mikael, sem er einungis 22 ára gamall, er á óskalista uppeldisfélags síns AGF en hann gekk til liðs við Midtjylland frá AGF þegar hann var fjórtán ára gamall.

AGF er sagt tilbúið að borga rúmlega 27 milljónir danskra króna fyrir Mikael en það samsvarar um 60 milljónum íslenskra króna.

Midtjylland vill hins vegar fá í kringum 110 milljónir danskra, 240 milljónir íslenskra, fyrir sóknarmanninn öfluga að því er fram kemur í frétt Ekstra Bladet.

Midtjylland telur að verðmiðinn á Mikael muni bara hækka, sérstaklega ef Íslandi tekst að tryggja sér sæti á EM 2020, en lokamótið fer fram næsta sumar víðsvegar um Evrópu.

Mikael á að baki 6 A-landsleiki en hann hefur verið fastamaður í íslenska hópnum síðan Erik Hamrén tók við þjálfun liðsins í ágúst 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert