Celtic minnist Jóhannesar annað kvöld

Jóhannes Eðvaldsson í leik með Celtic.
Jóhannes Eðvaldsson í leik með Celtic.

Skoska knattspyrnufélagið Celtic mun minnast Jóhannesar Eðvaldssonar með einnar mínútu þögn fyrir leik liðsins gegn Hamilton í skosku úrvalsdeildinni annað kvöld.

Jóhannes er látinn, sjötugur að aldri, en hann lék með Celtic á árunum 1975 til 1980 þar sem hann varð tvisvar skoskur meistari og var gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins. Jóhannes, sem var landsliðsfyrirliði Íslands um árabil, var kallaður „Big Shuggie“ en hann var búsettur í Glasgow alla tíð eftir að ferli hans sem atvinnuknattspyrnumaður lauk.

mbl.is