England byrjaði á sigri

Raheem Sterling fagnar sigurmarkinu.
Raheem Sterling fagnar sigurmarkinu. AFP

Enska landsliðið í fótbolta fer vel af stað á Evrópumótinu í fótbolta því liðið vann 1:0-sigur á Króatíu á Wembley í dag. Raheem Sterling skoraði sigurmarkið á 57. mínútu. 

Enska liðið byrjaði af miklum krafti og sótti mikið fyrstu mínúturnar. Phil Foden komst nálægt því að skora snemma leiks en hann skaut í stöng á sjöttu mínútu. Kalvin Phillips og Raheem Sterling áttu einnig tilraunir í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var markalaus. 

Hún var það fram að 57. mínútu þegar Phillips, miðjumaður Leeds, átti fallega stungusendingu á Sterling sem skoraði framhjá Dominik Livakovic í marki Króata. Fá færi litu dagsins ljós eftir markið og enska liðið fagnaði vel á heimavelli. 

Ásamt Englandi og Króatíu eru Tékkland og Skotland einnig í riðlinum. 

England 1:0 Króatía opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppótartíma. Það er ekki margt sem bendir til þess að það komi annað mark í þennan leik.
mbl.is