„Djöfull gott að sjá hann brosa og hlæja“

Kasper Schmeichel á blaðamannafundinum í dag.
Kasper Schmeichel á blaðamannafundinum í dag. AFP

Kasper Schmeichel, markvörður danska landsliðsins í knattspyrnu, segir það hafa verið frábært að fá að hitta Christian Eriksen í gær og sjá að hann væri hress. Eriksen fór í hjartastopp en var endurlífgaður meðan á leik Danmerkur og Finnlands stóð á laugardag.

„Það var djöfull gott að sjá hann brosa og hlæja og vera hann sjálfur. Bara að fá að sjá að það er í lagi með hann.

Við töluðum um allt og ekkert. Það er mikilvægast að honum líði vel. Hann er búinn að upplifa eitthvað sem við höfum ekki upplifað,“ sagði Schmeichel á blaðamannafundi í morgun.

„Hann er með allt aðra upplifun af atvikinu. Það var frábært að tala við hann og nú er mikil vinna fram undan sem við þurfum að ráða fram úr,“ bætti hann við.

Schmeichel sagði það hafa tekið á að sjá vin sinn endurlífgaðan á vellinum. „Þetta var ofsafengin lífsreynsla en hann er hér í dag og ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Hrósaði læknunum og Kjær 

Hann hrósaði læknaliðinu í hástert. „Einu hetjurnar eru læknarnir sem björguðu honum. Við erum atvinnumenn í knattspyrnu en þetta fólk helgar líf sitt því að bjarga fólki.

Það er ótrúlegt að ná að gera þetta undir þessari pressu. Ég get ekki lýst því hversu mjög ég dáist að þeim. Að þau skuli hafa náð honum til baka er kraftaverk.“

Þá hrósaði Schmeichel einnig Simon Kjær, fyrirliða landsliðsins, sem heimsótti Eriksen sömuleiðis á spítalann í gær. Kjær var fyrstur á vettvang á laugardaginn þar sem hann kom Eriksen í læsta hliðarlegu og gekk úr skugga um að hann hefði ekki gleypt tunguna.

Simon Kjær fylgist með læknum hlúa að Christian Eriksen á …
Simon Kjær fylgist með læknum hlúa að Christian Eriksen á laugardaginn. AFP

„Ég er afskaplega stoltur af því að hafa hann sem fyrirliða. Það kemur mér ekki á óvart að hann gerði það sem hann gerði. Hann býr yfir ótrúlegu næmi og mannlegri hlið.

Simon og Christian eyða miklum tíma saman í Mílanó þar sem þeir búa nálægt hvor öðrum,“ sagði markvörðurinn, en Kjær spilar fyrir AC Milan og Eriksen fyrir Inter frá Mílanó.

mbl.is