Blikarnir ætla að sækja til sigurs á skoskri grundu

Árni Vilhjálmsson í baráttunni við Ross McCrorie, varnarmann Aberdeen og …
Árni Vilhjálmsson í baráttunni við Ross McCrorie, varnarmann Aberdeen og markvörðinn Joe Lewis í fyrri leik liðanna í Laugardal í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Fiðringurinn er vafalaust farinn að aukast hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Breiðabliks en í kvöld kemur í ljós hvort liðinu takist að komast áfram í Sambandsdeild UEFA í knattspyrnu. Síðari leikur Aberdeen og Breiðabliks í 3.umferð fer fram á Pittodrie Stadium í Skotlandi í kvöld.

Aberdeen hafði betur 3:2 í fjörugum leik á Laugardalsvelli í síðustu viku. Skoska liðið komst þá 2:0 en Blikum tókst að jafna. Aberdeen skoraði sigurmarkið og hefur því eins marks forskot. Fyrir liggur að liðið sem kemst áfram mætir næst sigurvegaranum úr rimmu AEL Limassol frá Kýpur og Qarabag frá Aserbaídsjan.

„Ein af ástæðum þess að maður er í boltanum er þessi gulrót að geta borið sig saman við stóru liðin erlendis. Við förum þarna út hugaðir og hugrakkir. Þá verður þetta ekkert eðlilega gaman,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, þegar Morgunblaðið ræddi við hann áður en Blikar héldu utan. Höskuldur lítur svo á að rimma liðanna sé galopin eftir fjörugan fyrri leik á Laugardalsvelli.

„Við ætlum að fara til Skotlands og sækja til sigurs. Engin spurning. Einvígið er galopið og í fyrsta skipti í langan tíma hafa útivallarmörkin ekki auka vægi. Það hentar okkur í þessu tilfelli því þeir skoruðu þrjú í fyrri leiknum. Við trúum því að við getum slegið Skotana út og þessum leik fylgir bara tilhlökkun.“

Undirbúningurinn skilar sér

Góðum úrslitum í Evrópuleikjum fylgir aukið leikjaálag ef liðum tekst að komast áfram í útsláttarfyrirkomulaginu. Íslenska knattspyrnusumarið er í styttri kantinum, þótt það sé orðið lengra en áður, og stutt er á milli leikja hjá Breiðabliki þessa dagana.

Ef síðustu vikur eru skoðaðar þá lék Breiðablik gegn Keflavík á sunnudegi, Austria Wien heima á fimmtudegi, Víkingi á mánudegi, Aberdeen á fimmtudegi, Stjörnunni síðasta mánudag og gegn Aberdeen úti í kvöld.

Viðtalið við Höskuld má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert