Lést eftir 39 ár í dái

Jean-Pierre Adams lék 22 landsleiki fyrir Frakkland.
Jean-Pierre Adams lék 22 landsleiki fyrir Frakkland. Ljósmynd/Twitter

Jean-Pierre Adams, fyrrverandi franskur landsliðsmaður í knattspyrnu, er látinn 73 ára að aldri eftir að hafa verið í dái meira en helming ævinnar, 39 ár.

Adams, sem fæddist í Dakar í Senegal árið 1948, var nýorðinn 34 ára þegar hann fór í djúpt dá árið 1982 í kjölfar mistaka er hann gekkst undir skurðaðgerð á hnéi á sjúkrahúsinu í Lyon.

Fjöldamörg mis­tök voru gerð í aðgerðinni. Adams var ekki rétt barkaþrædd­ur svo að ein slang­an stíflaði önd­un­ar­veg­inn að lung­un­um. Hann varð því fyr­ir súr­efn­is­skorti og fór í hjarta­stopp. Hlaut hann alvarlegar heilaskemmdir og gat í kjölfarið aðeins opnað og lokað aug­un­um og kyngt en sýndi að öðru leyti eng­in viðbrögð.

Átti Adams að vakna innan nokkurra klukkustunda að aðgerðinni lokinni en endaði sem áður segir á því að vera í dái í 39 ár. 

Hafði Adams slitið liðband í hné og var í frábæru formi þegar hann gekkst undir aðgerðina.

Hann lést í morgun á Háskólasjúkrahúsinu í Nimes.

Eiginkonan honum við hlið allan tímann

Eig­in­kona hans, Berna­dette, sinnti hon­um á hverj­um degi öll 39 árin sem Jean-Pierre var í dái. Það gerði hún af alúð enda sagði hún dáið engu breyta um að hún elskaði hann út af lífinu.

Hún klæddi hann, mataði hann, baðaði hann og sneri hon­um í rúm­inu svo hann fengi ekki legusár, en hann bjó heima hjá fjölskyldu sinni áður en hann dvaldi á spítalanum í Nimes undir það síðasta.

Tengsl þeirra hjóna voru náin þrátt fyr­ir að Jean-Pier­re hafi ekki getað sýnt það með aug­ljós­um hætti. Kæmi það fyrir að Berna­dette þyrfti að bregða sér frá sögðu sjúkra­liðarn­ir að skap Jean-Pier­re virtist breyt­ast.  

„Hann skynj­ar að það sé ekki ég sem er að sinna hon­um,“ sagði Berna­dette í ítarlegu viðtali við CNN en þau voru gift í 51 ár. „Ég held að hann finni hluti, hann hlýt­ur að þekkja rödd­ina mína líka,“ sagði hún einnig.

mbl.is