Dauðvona í vetur en ætlar að snúa aftur

Kristoffer Olsson hefur spilað 48 sinnum fyrir Svíþjóð
Kristoffer Olsson hefur spilað 48 sinnum fyrir Svíþjóð AFP/Vano Shlamov

Sænski landsliðsmaðurinn og liðsfélagi Sverris Inga Ingasonar hjá FC Midtjylland, Kristoffer Olsson, segist ætla að spila fótbolta á nýjan leik eftir að hafa verið dauðvona í vetur.

Olsson var lagður inn á sjúkrahús og var tengdur við öndunarvél í þrjár vikur vegna fjölda blóðtappa í heila þann 20. febrúar en hann ræddi veikindin við Aftonbladet í dag. Svíinn var fluttur á taugadeild eftir mánuð á sjúkrahúsi í Árósum og hefur dvalið þar síðan.

Olsson segist hafa verið veikur í aðdraganda þess að honum snarversnaði aðfaranótt 20. febrúar en sem betur fer voru foreldrar hans í heimsókn og gátu keyrt hann á sjúkrahús. Olsson man ekki eftir ferðinni á sjúkrahús eða vikunum þremur sem hann lá á sjúkrahúsinu.

Olsson gat þó mætt og fagnað með liðsfélögum sínum sem tryggðu sér Danmerkurmeistaratitilinn á dramatískan hátt í gær og segist ætla að spila fótbolta á nýjan leik. Hvenær það verður er þó óvíst en Olsson segist geta hlaupið og skammtímaminnið er komið í eðlilegt horf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert