Ragnar með fimm mörk í fyrsta sigri

Ragnar Jóhannsson var drjúgur fyrir Hüttenberg í gær.
Ragnar Jóhannsson var drjúgur fyrir Hüttenberg í gær. Ljósmynd/Mark Thürmer

Ragnar Jóhannsson skoraði fimm mörk fyrir Hüttenberg í gærkvöldi þegar nýliðarnir unnu sinn fyrsta leik í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöldi. Hüttenberg vann Ludwigsburg, 28.27, á heimavelli og komst þar með upp úr fallsæti. Hefur nú fimm stig eftir níu leiki.

Sigurganga Bjarka Más Elíssonar og félaga í Füchse Berlin hélt áfram í gær. Berlínarliðið vann Erlangen, 31:25, í Max Schmeling-Halle í Berlín. Bjarki Már skoraði eitt mark. Þetta var áttundi sigur Füchse í deildinni á leiktíðinni.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í THW Kiel eru að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun. Kiel vann Göppingen á heimavelli nokkuð örugglega, 28.23. iben@mbl.is