Hafdís með titil strax eftir barneignafrí

Hafdís Sigurðardóttir í stökkgryfjunni í Laugardalshöll í dag.
Hafdís Sigurðardóttir í stökkgryfjunni í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Stella Andrea

Hafdís Sigurðardóttir úr UFA sneri aftur til keppni í dag eftir barneignafrí á síðasta ári og landaði Íslandsmeistaratitli í langstökki með glæsibrag á Meistaramótinu í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll.

Hafdís var nærri 6 metra stökki í fyrstu tilraunum sínum en stökk svo lengst 6,04 metra í fimmtu tilraun. Hafdís fór einnig yfir sex metra í lokastökkinu eða 6,02 metra. Hún vann greinina af nokkru öryggi og hélt því áfram þar sem frá var horfið árið 2016 en þessi 31 árs gamla frjálsíþróttadrottning hefur rakað til sín meistaratitlum í gegnum tíðina. Íslandsmet hennar í langstökki innanhúss er 6,54 metrar.

Irma Gunnarsdóttir úr Breiðabliki, sem hafði í nógu að snúast í dag, varð í 2. sæti með 5,82 metra stökk og María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH tók bronsið en hún stökk lengst 5,69 metra.

María Birkisdóttir úr FH vann 3.000 metra hlaup kvenna á 10:13,69 mínútum. Andrea Kolbeinsdóttir og Elín Edda Sigurðardóttir, báðar úr ÍR, komu næstar þar á eftir. Kristinn Þór Kristinsson úr HSK/Selfossi varð Íslandsmeistari í 3.000 metra hlaupi karla á 9:03,46 mínútum. Þórólfur Ingi Þórsson úr ÍR, fæddur 1976, tók silfurverðlaun en Snæþór Aðalsteinsson úr HSÞ, 20 árum yngri, varð í 3. sæti.

Kristinn Þór Kristinsson úr HSK/Selfossi varð Íslandsmeistari í 3.000 metra …
Kristinn Þór Kristinsson úr HSK/Selfossi varð Íslandsmeistari í 3.000 metra hlaupi karla. mbl.is/Stella Andrea

Thelma Lind Kjartansdóttir úr ÍR varð Íslandsmeistari í kúluvarpi en hún kastaði lengst 14,08 metra. Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR varð í 2. sæti með 13,73 metra kasti og Irma Gunnarsdóttir þriðja með 12,72 metra kasti.

Irma fagnaði hins vegar sigri í 60 metra grindahlaupi sem hún hljóp á 8,92 sekúndum, eða 2/100 úr sekúndu hraðar en María Rún Gunnlaugsdóttir. Hildigunnur Þórarinsdóttir úr ÍR varð þriðja á 9,09 sekúndum.

Ísak Óli Traustason úr UMSS varð Íslandsmeistari í 60 metra grindahlaupi karla á 8,26 sekúndum. Ísak Óli hafði skömmu áður fengið silfurverðlaun í langstökki. Einar Daði Lárusson úr ÍR kom næstur í grindahlaupinu á 8,39 sekúndum og Benjamín Jóhann Johnson úr ÍR fékk brons á 8,65 sekúndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert