Vaskur EM-hópur kominn til Lissabon

Íslenski keppnishópurinn á EM í hópfimleikum 2018 áður hann hélt …
Íslenski keppnishópurinn á EM í hópfimleikum 2018 áður hann hélt af landi brott í morgun til Lissabon. Ljósmynd/Kristinn Arason

Landsliðin fjögur sem taka þátt í Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Lissabon í Portúgal komu til borgarinnar rétt fyrir hádegið í dag eftir að hafa komið með beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli. Alls eru keppendur 48 í fjórum liðum sem taka þátt í kvennaflokki, stúlknaflokki, liðum blandaðra í unglingaflokki og í fullorðinsflokki.

Ísland er hvorki með lið í fullorðinsflokki karla né pilta að þessu sinni fremur en á undanförnum Evrópumótum.

Tólf skipa hvert liðanna fjögurra. Keppni á Evrópumeistaramótinu hefst á miðvikudaginn og lýkur á laugardag. Undankeppni verður tvo fyrstu dagana en keppt til úrslita tvo síðari dagana. 

Alls tekur 51 lið þátt í mótinu frá 16 löndum. Aldrei hefur þátttakan verið ein góð og nú en þátttökuþjóðum fjölgar um tvær frá mótinu fyrir tveimur árum en liðum mótsins fjölgar um fjögur. 

Íslensku liðin æfa á morgun og verður þétt dagskrá í keppnishöllinni.

Íslandi hefur yfirleitt gengið afar vel á EM í hópfimleikum og hampaði kvennasveitin gullverðlaunum 2010 og 2012 en hefur hlotið silfurverðlaun á tveimur síðustu mótum. Stúlknasveit Íslands varð Evrópumeistari fyrir tveimur árum þegar mótið fór fram í Maribor í Slóveníu. Á sama móti hafnaði blönduð sveit fullorðinna og blönduð sveit unglinga í þriðja sæti.

Með 48 keppendum Íslands er fjölmennur og vaskur hópur þjálfara og annars aðstoðarfólks. Einnig komu margir foreldrar og aðstandendur keppenda með flugvélinni fyrr í dag og von er á fleirum á morgun og á miðvikudag.

Mbl.is og Morgunblaðið eru með í för til Lissabon og munu næstu daga fylgjast grannt með keppendum Íslands á báðum miðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert