Átta leikja bann fyrir heimilisofbeldi

Kareem Hunt í leik með Kansas.
Kareem Hunt í leik með Kansas. AFP

NFL-deildin í amerískum ruðningi úrskurðaði hlauparann Kareem Hunt í átta leikja bann fyrir heimilisofbeldi. Hunt var rekinn frá Kansas City Chiefs á síðasta ári vegna málsins, en hann samdi við Cleveland Browns í staðinn í febrúar. 

Hann fær hins vegar ekki að spila með nýja liðinu, fyrr en næsta tímabil er hálfnað. Hunt sást á myndbandi sparka í konu og taka þátt í öðrum slagsmálum í kjölfarið. Hann fær ekki borgað á meðan á banninu stendur og kemur hann ekki til með að áfrýja úrskurðinum. 

Hunt má æfa með Cleveland til  31. ágúst, er bannið hefst. „Ég vil biðja alla afsökunar fyrir það sem ég gerði á síðasta ári. Ég veit að hegðunin mín særði marga og ég get ekki beðist nægilega oft afsökunar," sagði Hunt í yfirlýsingu sem Cleveland Browns gaf út í dag. 

Kareem Hunt er einn besti hlauparinn í NFL-deildinni, en forráðamenn Kansas City voru fljótir að reka hann, þrátt fyrir að liðið væri í miklum slag um að komast í úrslitaleik deildarinnar, Superbowl. Það vakti reiði marga að Cleveland var ekki lengi að semja við hann, en forráðamenn félagsins segja hann eiga annað tækifæri skilið. 

mbl.is