„Hún bylti íþrótt sinni“

Martina Navratilova,
Martina Navratilova,

Velta má því fyrir sér hversu mikil áhrif það myndi hafa á feril íþróttastjörnu á heimsvísu ef hann eða hún kæmi út úr skápnum í dag. Sjálfsagt færi það eftir staðsetningu á hnettinum en réttindi og lífsgæði samkynhneigðra eru jú afar mismundi eftir ríkjum.

Þegar tenniskempan Martina Navratilova kom opinberlega út úr skápnum árið 1981 hafði það geysilega mikil áhrif. Fleira heimsfrægt íþróttafólk hefur vissulega komið út úr skápnum en ekki á sambærilegum tímapunkti og Navratilova hvað það varðar að hún var á toppnum í sinni íþrótt. Hafði unnið ellefu sinnum á risamótunum og var því stórstjarna.

Navratilova fékk stærri skammta af hugrekki í vöggugjöf en margir aðrir. Fyrir utan yfirlýsingu sína árið 1981 var hún dugleg að láta kommúnistana heyra það eftir að hafa flúið Tékkóslóvakíu og lýsti þeim skoðunum sínum umbúðalaust að fólk sem fæðist karlkyns eigi ekki að keppa við konur í íþróttum þótt kynleiðrétting hafi farið fram. Ekki hafa allir farið um hana blíðum höndum eftir þau ummæli.

4 ára með spaða í hönd

Varla er hægt að halda öðru fram en að Navratilova sé ein besta íþróttakona sögunnar. Afrek hennar á risamótunum, og vinningshlutfall á ferlinum, er með nokkrum ólíkindum. Hún fæddist í hinni fallegu höfuðborg, Prag, hinn 18. október árið 1956. Þá hét hún Martina Subertova. Síðar tók hún upp nafn stjúpföðurins Navratil. Endingin „ova“ er til að setja nafnið í kvenkyn.

Navratilova gerðist formlega atvinnumaður í tennis árið 1975 eða nítján ára gömul. Hún hafði hins vegar tekið þátt í alþjóðlegum mótum frá árinu 1973 og 1972 hafði hún orðið tékkneskur meistari.

Var það svo sem engin tilviljun að þessi örvhenta íþróttakona skaraði snemma fram úr. Hún byrjaði að fikta við tennis 4 ára gömul og æfa skipulega þegar hún var 7 ára gömul. Ef til vill voru þó einhverjir hæfileikar henni í blóð bornir því amma hennar, Agnes Semanska, var næstbesta tenniskona Tékkóslóvakíu áður en síðari heimsstyrjöldin skall á.

Flúði til Bandaríkjanna

Árið 1976 urðu tímamót í lífi Martinu Navratilovu þegar hún flúði Tékkóslóvakíu og settist að í Bandaríkjunum. Hún hafði þá tapað í undanúrslitum fyrir Chris Evert á Opna bandaríska mótinu í september. 18 ára gömul vippaði hún sér inn á skrifstofu stofnunar sem hafði með innflytjendamál að gera og sóttist formlega eftir því að yfirgefa Tékkóslóvakíu og setjast að í Bandaríkjunum. Mánuði síðar fékk hún atvinnuleyfi í Bandaríkjunum eða græna kortið umtalaða.

Martina Navratilova fagnar sínum 20. sigri á Wimbledon árið 2003.
Martina Navratilova fagnar sínum 20. sigri á Wimbledon árið 2003. Reuters

Árið 1981 fékk hún bandarískan ríkisborgararétt eða fimm árum síðar. Í framhaldinu greindi hún frá því opinberlega að hún væri samkynhneigð. „Ég gat í raun ekki komið út úr skápnum fyrr en ég hafði fengið ríkisborgararéttinn því annars hefði umsóknin ekki verið samþykkt,“ sagði Navratilova í viðtali í Good Morning Britain sjónvarpsþættinum árið 2017.

Vafalaust þykir lesendum það vera umhugsunarefni að samkynhneigð hafi getað komið í veg fyrir ríkisborgararétt í Bandaríkjunum en viðhorf fólks voru önnur á þeim tíma. Navratilova áætlar að vegna fordóma í garð samkynhneigðra hafi hún orðið af gríðarlegum tekjum næstu ár á eftir. Haft var eftir henni árið 2007 að hún hefði misst af um 10 milljónum dollara vegna þess að styrktaraðilar héldu að sér höndum gagnvart henni á níunda áratugnum. Möguleikarnir á samstarfssamningum væru alla jafna mjög miklir fyrir tenniskonu sem unnið hefði ellefu risamót og náð efsta sæti heimslistans þremur árum áður.

Mikil fjölhæfni

Ferill Navratilovu er mjög athyglisverður af ýmsum ástæðum. Hún var til að mynda mjög fjölhæfur spilari og var sigursæl hvort sem var í einliðaleik eða tvíliða- og tvenndarleik. Ein af hennar helstu keppinautum, Billie Jean King, sagði Navratilovu vera besta tennisspilara í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik sem uppi hefur verið. Gefur það ef til vill einhverja mynd af fjölhæfni Navratilovu. 

Martina Navratilova sagði skilið við íþróttina þegar hún var orðin …
Martina Navratilova sagði skilið við íþróttina þegar hún var orðin 53 ára en síðustu árin tók hún þátt í liðakeppnum. Reuters

Annað sjónarhorn á frábæran feril er hversu lengi Navratilova var í fremstu röð. Hún er raunar elsti sigurvegari á risamóti í tennis eftir að hafa unnið tvenndarleik á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2006. Var þá einn mánuður þar til hún varð fimmtug. Sigrar hennar í einliðaleik á risamótunum áttu sér stað frá árinu 1978 til 1990. Eftir það vann hún marga risatitla í tvenndarleik og þar af þrjá eftir aldamótin 2000.

Ýmsar staðreyndir frá ferli Navratilovu sýna svart á hvítu hversu sigursæl hún var. Hún sigraði átján sinnum í einliðaleik á risamótunum. Þrjátíu og einu sinni vann hún tvíliðaleikinn á risamótum og tíu sinnum tvenndarleikinn. Á Wimbledon var hún sérlega erfið viðureignar. Vann hún einliðaleikinn á Wimbledon sex ár í röð frá 1982 til 1987 og alls níu sinnum. Steffi Graf kom í veg fyrir að sú sigurganga yrði enn lengri en hún vann Navratilovu í úrslitum í einliðaleik á Wimbledon 1988 og 1989.

Vann 2.189 leiki

Samanlagður árangur Navratilovu er sláandi en á löngum ferli var vinningshlutfallið 85%. Hún vann 2.189 leiki á atvinnumannaferlinum en tapaði 362. Í einliðaleik eru sigurleikirnir 747 og töpin 143.

Ferill sem þessi kallar vitaskuld á hinar ýmsu vegtyllur. Hún var tvívegis íþróttakona ársins hjá AP-fréttaveitunni en það var 1983 og 1986. Hún var sjö sinnum valinn kona ársins á WTA-mótaröðinni. Hún var tekin inn í Frægðarhöllina í tennis árið 2000 og 2003 var hún heiðruð af BBC fyrir ferilinn þegar BBC útnefndi íþróttafólks ársins.

Þegar Navratilova hafði lokið sínum síðasta leik í einliðaleik í Bandaríkjunum sem atvinnumaður hafði Morgunblaðið þetta um hana að segja í grein 16. nóvember 1994.

„Það er raunar allt of vægt til orða tekið að segja að hún hafi sett mark sitt á tennis. Þessi örvhenta baráttukona er ein þeirra fáu íþróttamanna sem geta státað af því að hafa bylt íþrótt sinni.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 12. febrúar 2020

Martina Navratilova.
Martina Navratilova. AFP
mbl.is