„Maður verður alveg smá lítill í sér“

Eygló stefnir ótrauð á keppni á Ólympíuleikunum í París 2024. …
Eygló stefnir ótrauð á keppni á Ólympíuleikunum í París 2024. Draumar geta ræst enda er hún með öflugri lyftingakeppendum íslenskum og lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Ljósmynd/Isaac Morillas

„Þetta er fyrsta mótið sem telur til stiga fyrir Ólympíuleikana 2024 svo þetta var mjög mikilvægt mót,“ segir Eygló Fanndal Sturludóttir, eini íslenski keppandinn á heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Bogotá í Kólumbíu sem nú er nýlokið.

Eygló hefur aldrei keppt í annarri eins hæð, Bogotá er 2.600 metra yfir sjávarmáli og loftið því býsna þunnt. „Það var dálítið erfitt að venjast,“ því játar Eygló sem er læknanemi á öðru ári við Háskóla Íslands og fær að taka sjúkrapróf í janúar þar sem hún var upptekin við að rífa í járnið á hefðbundnum próftíma. „Ég nýt mikils sveigjanleika í háskólanum og er mjög þakklát fyrir það,“ tekur hún fram.

Eygló hafnaði í 19. sæti af 39 keppendum í -71 kg flokki kvenna. Í snörun lyfti hún 90 kg í fyrstu lyftu, svo 94 en 98 vildu ekki alveg upp í þetta sinnið en hefði verið bæting um eitt kíló hjá henni. Í jafnhendingu reif hún upp 115 kg í opnunarlyftunni og tók því næst 119 án þess að blása úr nös, þyngd sem er einu kílógrammi frá hennar eigin Íslandsmeti. Að lokum reyndi Eygló við 123 kg en dómarar vildu ekki gefa þeirri lyftu grænt ljós.

„Við Ingi [Gunnar Ólafsson], þjálfarinn minn, vorum einu Íslendingarnir þarna og þetta var verulega mikil áskorun, Bogotá er í 2.600 metra hæð og maður fann alveg fyrir súrefnisskortinum þegar maður var að hreyfa sig. Ég mætti samt nokkrum dögum fyrir mótið svo ég var alveg búin að aðlagast að mestu leyti fyrir keppni,“ segir lyftingakonan íslenska frá.

Sat uppi á hóteli og beið

Önnur áskorun hafi verið keppnistíminn sem var hálftíu að kvöldi. „Ég var orðin þreytt þegar ég loksins byrjaði,“ játar Eygló. Finnst henni þá betra að keppa að morgni sem er mjög algengur tími kvennaflokka á lyftingamótum?

„Mér finnst eiginlega best að vera í hádeginu, þá getur maður vaknað á venjulegum tíma og borðað smá, maður þarf ekki að bíða allan daginn eftir að fá að keppa. Ég sat bara uppi á hóteli að bíða og það tekur rosalega mikla orku úr manni að vera stressaður svona lengi,“ segir læknaneminn sem kallar ekki allt ömmu sína í stálinu eins og sést á fyrri viðtölum við hana sem hér er vísað til.

Hvernig upplifun er að mæta á heimsmeistaramót, verandi eini Íslendingurinn og í flokki með tæplega 40 öðrum konum?

„Það er alveg viss tilfinning að koma og sjá hinar stelpurnar og hvað þær eru góðar í að lyfta, maður verður alveg smá lítill í sér svona fyrst en svo þarf maður bara að muna að það er ástæða fyrir að maður er þarna og maður þarf bara að gera sitt og lyfta því sem maður getur,“ segir íslenska valkyrjan einbeitt.

Er hún sátt við árangurinn á HM?

„Nei, ég er ekki nógu sátt við þetta mót, ég hefði viljað gera betur og ég kom þarna til að gera betur. Þetta var ágætt, 19. sætið er fínt en ég kom þarna til að gera betur,“ svarar Eygló sem er á leið á Evrópumeistaramót í vor og líklega á næsta heimsmeistaramót í september 2023.

Hörkukeppni en á möguleika

Undirbúningur fyrir þetta mót gekk ekki að óskum, Eygló veiktist í nóvember og náði ekki að sinna æfingum af fullum dampi. Hún var þó orðin sæmileg fyrir HM, „en maður hefði getað gert betur, ég geri bara það besta úr þessu“, segir hún, bjartsýnin uppmáluð enda þýðir ekkert annað í heimi stálsins þar sem engin grið eru gefin.

Kæmi til greina að hún stigi á svið á Ólympíuleikunum 2024?

„Það er markmiðið mitt og það er það sem við erum að keppa að núna, að ná stigum og komast inn á Ólympíuleikana. Auðvitað er erfitt að segja hvernig það fer, það er hörkukeppni um þessi sæti en ég á möguleika,“ segir Eygló og ljóst að hugur fylgir þar máli.

En skólinn, hvernig gengur læknisfræðin?

„Það gengur vel, ég er á öðru ári og var mjög heppin að skólinn leyfir mér að taka prófin í janúar,“ segir Eygló sem tekur sjúkrapróf í janúar. „Þau eru mjög góð við mig og það bjargar þessu algjörlega, annars væri þetta ekki mögulegt,“ segir Eygló hispurslaust, íslensk lyftingakona sem hugsanlega keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í París sumarið 2024. Við spyrjum að leikslokum.

mbl.is