+2 og +4 hjá Valdísi og Guðrúnu

Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 74 í gær.
Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 74 í gær. Ófeigur Lýðsson

Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir léku fyrsta hring á úrtökumóti fyrir LPGA-mótaröðina í gær. Valdís Þóra lék á tveimur höggum yfir pari, eða 74 höggum, og Guðrún Brá lék á fjórum höggum yfir pari eða 76.

Regina Plasencia frá Mexíkó lék best á Mission Hills vellinum í Kaliforníu í gær, en hún kom í hús á sjö höggum undir pari, 65. Þær þurfa því að leika frábærlega næstu daga, ætli þær að eiga einhvern möguleika á að komast á næsta stig úrtökumótsins.

Þetta er fyrsta stig úrtökumótsins, en alls eru stigin þrjú. Rúmlega 350 keppendur leika á þremur keppnisvöllum. Leiknir verða fjórir hringir eða 72 holur í vikunni, en alls komast 90 efstu kylfingarnir áfram á annað stig úrtökumótsins.

Þetta er frumraun Guðrúnar í atvinnumennsku, en hún ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

mbl.is