Glæsilegt met hjá Sei Young-Kim

Sei Young-Kim.
Sei Young-Kim. AFP

Sei Young-Kim frá Suður-Kóreu setti nýtt met í LPGA-mótaröð kvenna í golfi þegar hún sigraði á Thornberry Creek Classic-mótinu sem lauk í Oneida í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöld.

Sei Young-Kim, sem er 25 ára gömul, lauk keppni og hvorki meira né minna en 31 höggi undir pari vallarins. Hún lék fyrsta hringinn á 63 höggum, annan á 65, þriðja á 64 og fór svo lokahringinn í gær á 65 höggum eða sjö höggum undir pari. Hún fékk samtals 31 fugl á hringjunum fjórum og það er einnig nýtt met á 72 holum í LPGA-mótaröðinni.

Gamla metið var 27 högg undir pari en hin sænska Annika Sörenstam afrekaði það í LPGA-mótaröðinni árið 2011 og Sei Young-Kim jafnaði þann árangur fyrir tveimur árum.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var á meðal keppenda á mótinu en hún var aðeins einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.

Lokastaðan á mótinu

mbl.is