Birgir Leifur komst áfram í 14. sinn

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Ljósmynd/Seth

Birgir Leifur Hafþórsson hefur endanlega tryggt sér sæti á lokaúrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Haraldur Franklín Magnús er hins vegar úr leik eftir 2. stig úrtökumótsins.

Mbl.is hefur þegar greint frá gengi þeirra í dag, en endanleg niðurstaða var ekki ljós fyrr en lokaniðurstaða var í höfn. Alls var keppt á fjórum keppnisvöllum á 2. stigi úrtökumótsins en Birgir Leifur keppti í Madríd á meðan Haraldur keppti í Almería.

Birgir Leifur endaði í 6.-13. sæti, samtals á 13 höggum undir pari eftir fjóra hringi. Þetta er í 20. sinn sem hann tekur þátt í úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina og í 14. sinn sem hann kemst á lokamótið. Það fer fram 10.-15. nóvember næstkomandi á Spáni.

Haraldur var fjórum höggum frá því að komast áfram, en hann var samanlagt á fjórum höggum undir pari eftir hringina fjóra. Þetta var í þriðja sinn sem hann reynir fyrir sér á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina og jafnframt í þriðja sinn sem hann fellur úr keppni á 2. stigi.

mbl.is